Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi.

430. mál
[19:03]
Horfa

Flm. (Stefán Vagn Stefánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér þingsályktunartillögu mína um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Litið verði við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil.“

Til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda erum við tilneydd til að þurfa fleiri græna orkugjafa. Framleiðsla rafeldsneytis sem vetnis eða annars rafeldsneytis í formi ammoníaks, metanóls eða metans, eru græn tækifæri sem bíða þess að vera nýtt. Framleiðsla rafeldsneytis á Íslandi er talin vera ábatavæn og mikilvægt framlag í baráttu okkar gegn loftslagshlýnun.

Eftirspurn eftir grænu vetni sem framleitt hefur verið með rafgreiningu vatns og endurnýjanlegri orku, samhliða markmiðum í loftslagsmálum, mun einungis fara vaxandi á komandi árum. Aðgengi að rafeldsneyti þarf að vera til staðar og til að framleiðslan geti orðið samkeppnishæf til framtíðar þarf hún að vera á hagstæðu verði. Mikilvægi þess að Ísland geti orðið sjálfbært er kemur að öflun á rafeldsneyti er ótvírætt eins og núverandi ástand heimsmála sýnir svo rækilega. Sjálfbærni í orkuöflun er þjóðaröryggismál fyrir utan þá þjóðhagslegu hagsmuni sem af því hljótast að framleiða innlenda orkugjafa til notkunar í orkuskiptum Íslendinga. Framtíðartækifærin eru því mikil þegar kemur að framleiðslu á rafeldsneyti og þetta styður við markmið okkar um orkusjálfstæði Íslands.

Við höfum ákveðin markmið í átt að kolefnishlutleysi og þó að þau séu af ýmsum talin afar háleit þá ætlum við okkur að standast skuldbindingar okkar í loftslagsmálum. Ásamt því að framleiða endurnýjanlega orkugjafa til að fullnægja þörfum innan lands liggja einnig gríðarleg tækifæri í að hefja útflutning á rafeldsneyti. Framleiðsla á rafeldsneyti er kostnaðarsöm aðgerð en þótt framleiðsla á rafeldsneyti og sala sé í dag hlutfallslega lítil þá er áhugi fjárfesta mikill og það felast ákveðin tækifæri í því að fjármagna framleiðsluna þegar markaðir eru orðnir tryggir. Á heimsvísu er gert ráð fyrir að kostnaðarliðir fari lækkandi á næstu árum. Eitt af tækifærum Íslands við framleiðslu rafeldsneytis er að nýta mögulega árstíðabundna umframorku og hámarka arðsemi.

Með stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu sem yrði í meirihlutaeigu ríkisins er tryggt að stærsti hluti ábatans af framleiðslunni renni til þjóðarinnar. Ef horft er til Noregs og stofnunar ríkisolíufélagsins Statoil árið 1972 ætti öllum að vera ljós ábati norska ríkisins af þeirri ákvörðun. Norski olíusjóðurinn er einn sá stærsti í heiminum í dag og hefur gerbreytt stöðu Norðmanna til uppbyggingar innviða og þjónustu við íbúa um allan Noreg. Ísland er í kjörstöðu til að nýta auðlindir sínar til framleiðslu rafeldsneytis, bæði fyrir innanlandsframleiðslu og mögulega til útflutnings, og styrkja þannig tekjustofna ríkissjóðs. Má velta því upp í þessu samhengi hvort tekjur af slíku fyrirtæki ættu að renna í samfélagssjóð líkt og Norðmenn hafa komið sér upp í tengslum við olíuvinnslu sína.

Með á þessari tillögu minni eru hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.

Virðulegur forseti. Til að stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi geti orðið að veruleika skipta stuðningur og aðgerðir opinberra aðila og nýsköpunarsjóða afar miklu máli svo möguleiki sé á að skapa það umhverfi sem best verður á kosið og styðja við þróun tækni og lausna. Það er von mín að ályktunin hljóti hljómgrunn þvert á flokka í þinginu og verði samþykkt.

Við á Íslandi erum í sterkri stöðu til orkuskipta. Þar af leiðandi þurfum við að gæta þess að tækifærin sem liggja fyrir í þessum málaflokki renni okkur ekki úr greipum. Tæknin er til staðar og okkur ber að nýta hana í þágu þjóðarinnar.