Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

hvalveiðar.

[15:42]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í fyrra svari mínu þá er það svo að ákvarðanir mínar þurfa auðvitað að byggja á lagagrunni og sá grundvöllur er ekki fyrir hendi að því er þekkingin í ráðuneytinu leggur til grundvallar og upplýsir mig um. Hins vegar vil ég segja það að þessar veiðar hafa verið stundaðar um langan tíma en samfélagið okkar hefur breyst. Gildin um það hvað okkur finnst í lagi og hvað okkur finnst ekki í lagi hafa sem betur fer líka breyst og það er svo sannarlega kominn tími til þess að við ræðum það á grundvelli staðreynda hvort okkur finnist ásættanlegt að stunda atvinnugrein af þessu tagi miðað við þau gildi sem við viljum vera þekkt fyrir á alþjóðavettvangi. Þau gögn sem við höfum nú undir höndum eiga að hjálpa okkur við það og við þurfum að hafa þrek til að ræða það — við getum gert það núna vegna þeirrar reglugerðar sem ég setti í fyrrasumar, en hafði ekki verið sett áður, (Forseti hringir.) — til þess að tryggja að almenningur, hagsmunaaðilar og samfélagið sjái hvað hér er á ferðinni.