Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Vinnumarkaðurinn kallar eftir skýrum aðgerðum stjórnvalda og að kjör fólks séu jöfnuð með einhverjum hætti. Að mínu mati er það útópía að halda því fram að fullkominn jöfnuður í þróuðu samfélagi sé mögulegur. Við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum og það þarf að beita samvinnuhugsuninni í baráttunni við verðbólguna með fjölþættum aðgerðum. Kjaragliðnun hefur átt sér stað en sú þróun hefur verið lengi milli fjármagnseigenda og venjulegs launafólks. Gliðnunina má einnig rekja til hærra menntunarstigs hér á landi og það er fagnaðarefni að sjá fólk sækja sér aukna þekkingu og skila þar með þeirri þekkingu í virðisaukningu fyrir samfélagið. Við viljum að menntun sé metin til launa og að það sé hvati til að auka þekkingu sína og færni á vinnumarkaði. Það er eðlilegt að slíkur hvati sé til staðar til að afla sér frekari þekkingar á sínu sviði og fyrir aukna þekkingu er sanngjarnt að fá auknar greiðslur. Við eigum að hvetja fólk til að sækja sér aukna þekkingu og þar á jöfnuðurinn að vera mestur.

Virðulegi forseti. Ekki er greitt tryggingagjald eða útsvar af útgreiddum arði og mikill munur er á milli skattlagningar af hagnaði lögaðila og svo tekjuskatts. Er ekki kominn tími til að taka samtalið um það skatthlutfall sem fjármagnseigendur greiða af útgreiddum arði? Við þurfum að skapa sanngjarnara og skilvirkara skattkerfi og að fjármagnstekjuskattur verði settur jafnvel í þrepaskiptingu. Við eigum að styðja vel við nýsköpunarstarfsemi auk lítilla og meðalstórra fyrirtækja en við búum öll saman í þessu landi og eigum þar af leiðandi að bera þessa samfélagslegu ábyrgð saman og allir að greiða sitt með skilvirkari hætti inn í samneysluna. Það á að vera leiðarljósið í þessum efnum og við eigum að búa til sanngjarnari leikreglur í skattkerfinu okkar.