Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hér er á ferðinni afar mikilvæg og tímabær tillaga að mínum dómi og alveg ljóst að það hefur verið lögð mikil vinna í þetta verkefni sem ber yfirskriftina Gott að eldast, sem hljómar ákaflega vel. Mér sýnist þetta við fyrstu sýn vera mjög vel unnið og ánægjulegt að þetta hafi litið dagsins ljós, en að sjálfsögðu er meginmarkmiðið náttúrlega að hrinda þessu í framkvæmd og vona ég að það takist svo sannarlega vel og að ekkert verði dregið úr því.

Mig langaði aðeins að spyrja hv. þingmann út í það sem lýtur kannski að einhverju leyti að þessari áætlun og snýr að virkninni að mínum dómi. Kannanir meðal eldra fólks hafa sýnt að nær öllum, eða u.þ.b. 97%, finnst að auðvelda ætti þeim sem komnir eru á lífeyrisaldur að vera virkir á atvinnumarkaðnum. Atvinnuþátttaka eldri borgara færir þeim aukna virkni í samfélaginu. Hér er sérstakur kafli sem heitir Virkni, með undirtitlinum Alhliða heilsuefling, en við þekkjum það að aukin virkni stuðlar að vellíðan og lífsánægju og því virkara sem eldra fólk er því meiri lífsgleði upplifir það. Stjórnvöld verða að vera meðvituð um þetta og um stöðu, væntingar og viðhorf aldraðra þegar kemur að atvinnuþátttöku og jákvæð áhrif hennar á líðan eldri borgara. Ég veit að þessi aðgerðaáætlun snýr að þjónustu við eldra fólk, en var þetta rætt innan hópsins og væri ekki eðlilegt að ávarpa þennan mikilvæga þátt, þ.e. atvinnuþátttökuna, í þessari umræðu og tillögu?