Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Hér tölum við um aðgerðaáætlun. Betra líf fyrir eldra fólk, ég verð að segja að öll skref í þá átt að auka við þjónustu eldra fólks eru jákvæð skref, en ég ætla að standa hér sem fulltrúi Flokks fólksins sem mælt hefur fyrir því úr þessum ræðustóli frá því að ég kom á Alþingi Íslendinga að eldra fólk þurfi fyrst og síðast á því að halda að fá hagsmunafulltrúa. Fyrir réttum tveimur árum síðan var það samþykkt einróma af 54 þingmönnum í þessum sal, eftir að Flokkur fólksins hafði nýtt það sem sitt samningamál fyrir þinghlé, að ráðherra myndi skipa starfshóp og sá starfshópur ætti að koma inn í þingið með fullbúið frumvarp sem legði til grundvallar nákvæmlega það sem við vorum að óska eftir, að sett yrði á stofn embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Hins vegar er fyrsta skrefið í þessari aðgerðaáætlun til framtíðarsýnar fyrir hátt í 50.000 eldri borgara að ráða tvo starfsmenn inn hjá Ísland.is sem eiga að sjá til þess að eldra fólk geti hringt þangað inn til að afla sér upplýsinga um hvert þeir eigi að fara og hvort þeir eru að koma eða fara. Með fullri virðingu, hv. þingmaður, þá er ég algerlega og gjörsamlega miður mín yfir því hvað þetta er lítið og löðurmannlegt sem við erum að tala um hér. Ég get ekki séð fyrir mér hvernig í ósköpunum — nú er búin að vera hérna Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála alveg frá 1. janúar í fyrra. Eldra fólk hefur ekki hugmynd um það af því að ekkert er búið að gera í því að markaðssetja það og kynna fyrir eldra fólki. Ég spyr hv. þingmann: Er hv. þingmaður sáttur við það að hagsmunafulltrúa eldra fólks sé varpað fyrir róða á meðan þessi aðgerðaáætlun tekur allt sviðið (Forseti hringir.) og skýrum vilja löggjafans fyrir tveimur árum síðan sé gjörsamlega hent fyrir borð, en hann var að setja á stofn embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks?