Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir svarið. Ég vil hvetja hana til að kynna sér það sem við höfum verið að berjast fyrir í Flokki fólksins, að fá inn hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk. Í þessari aðgerðaáætlun sem hér er verið að tala um og mæra er t.d. hvergi nokkurs staðar tekið á því hvað eigi að gera í sambandi við búsetuúrræði fyrir þá einstaklinga sem eru að daga uppi hér, án búsetuúrræða, á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Nýjustu upplýsingar frá nýjum framkvæmdastjóra sýna að 66 eldri borgarar eru þar núna og eiga í engin hús að venda því að það er ekkert utanumhald. Hv. þm. Jódís Skúladóttir, hvernig eiga tveir starfsmenn hjá Ísland.is að sinna upplýsingagjöf fyrir allan þennan hóp fólks? Þegar hv. þingmaður nefnir hvernig hinu stafræna Íslandi er nákvæmlega fyrir komið í dag þá verðum við líka að horfast í augu við það að tugir þúsunda eldra fólks eru bara gjörsamlega og algjörlega jaðarsettir, búið er að svipta þá allri virðingu og sjálfstæði (Forseti hringir.) í því samfélagi sem þeir fæddust og ólust upp í, því miður. Hvernig munu þessir tveir einstaklingar hjá Ísland.is hjálpa þessu fólki?