Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú vera neikvæður tónn hér og finnst kannski sérstaklega talað dálítið niður til þessa hóps. Eins og allar þessar þúsundir manns séu algjörlega vanhæfar um að bjarga sér, leita sér upplýsinga eða afla sér nokkurs skapaðs hlutar án aðstoðar. Þannig er það ekki og alveg eins ég kom inn á í mínu fyrra andsvari þá er þetta gríðarlega ólíkur og fjölbreyttur hópur, en til staðar í þessari aðgerðaáætlun eru starfsmenn ráðnir til fjögurra ára til að aðstoða fólk.

Síðan langar mig líka að segja, af því að mér finnst talað um að þetta sé einhvern veginn ekkert merkilegt sem hér er verið að gera, að þetta er gríðarlega … (IngS: Þetta eru svik.) — Þetta eru svik, segir hv. þingmaður. Það eru 2 milljarðar í þessu. Það er mikið samráð, það er verið að auka lífsgæði og verið að stefna að því að gera líf eldra fólks betra og auðveldara. Það er verið að bæta lífsgæði þeirra, það er bæði fjármagnað og skipulagt og það er dapurlegt að sjá hv. þingmann koma hér upp bara til að rífa það niður. (Gripið fram í.)