Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta velferðarnefndar um þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028.

„Minni hlutinn telur nauðsynlegt að skoða tillögu þessa í samhengi við stefnumótun Alþingis í málefnum eldra fólks undanfarin ár. Alþingi samþykkti sumarið 2021 þingsályktunartillögu þingmanna Flokks fólksins um að koma á fót embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Svo virðist sem ráðherra málaflokksins hafi ákveðið að setja það verkefni á hilluna og setja eigin áherslur í forgang, frekar en að fylgja skýrum vilja Alþingis þar sem þingsályktunartillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þeirra 54 alþingismanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.

Í þingsályktun nr. 34/151 frá 13. júní 2021 um hagsmunafulltrúa eldra fólks segir: „Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn meti m.a. hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skuli vera. Starfshópurinn skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022.“

Eftir að Alþingi samþykkti fyrrgreinda þingsályktunartillögu gekk dapurlega hægt hjá ráðherra að skipa starfshópinn sem ályktunin kvað á um að skyldi stofnað til og í raun var hann ekki skipaður fyrr en í apríl 2022, eftir að frestur til að skila ráðherra drögum að frumvarpi, sem Alþingi hafði kveðið skýrt á um með þingsályktuninni, rann út.

Starfshópurinn virðist nú hafa lokið vinnu sinni. Formanni Flokks fólksins var í kjölfarið boðið að funda með ráðherra og formanni starfshópsins. Þar kom í ljós að formaður starfshópsins hugðist ekki skila ráðherra frumvarpi, heldur átti að mæla með því að öll slík fyrirheit yrðu sett á ís þar til að þessi aðgerðaáætlun sem hér er til umfjöllunar væri komin til framkvæmda og hægt að meta árangur hennar.

Því miður virðist það liggja ljóst fyrir að ráðherra málaflokksins hefur ekki hugsað sér að framfylgja skýrum vilja löggjafans þrátt fyrir að allur þingheimur standi því að baki að eldra fólki skuli tryggður hagsmunafulltrúi.

Öllum má vera ljóst að sú aðgerðaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi er í engu að tryggja þá hagsmuni sem embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks, hér eftir hagsmunafulltrúi, er ætlað að tryggja.

Sameiginlegir snertifletir þessarar aðgerðaáætlunar við embætti hagsmunafulltrúa lúta helst að fræðslu og upplýsingum um þá þjónustu sem eldra fólki er þegar tryggð.

Í aðgerðaáætlun þessari er boðað að tveir ráðgjafar verði ráðnir til Ísland.is til að sinna almennri ráðgjöf varðandi réttindi og þjónustu eldra fólks. Slíkt átak er til bóta en skilar engan veginn þeirri vernd og því félagslega öryggi sem hagsmunafulltrúa er ætlað að sinna.

Þá tryggir aðgerðaáætlunin ekki þá réttindagæslu sem hagsmunafulltrúi mundi tryggja, líkt og hliðstætt embætti umboðsmanns barna gerir í dag.

Frá því að Flokkur fólksins var kjörinn á Alþingi hefur hann barist fyrir því að stofnað yrði embætti sem mundi sinna frumkvæðiseftirliti með högum eldra fólks, tryggja að ekki yrði gengið á rétt eldra fólks í bágri stöðu og vinna gegn félagslegri einangrun þess. Sú aðgerðaáætlun sem hér er til umfjöllunar er að einhverju leyti til bóta, en tekur í engu á þeim vanda sem þúsundir eldra fólks búa við í dag.

Þá er það ámælisvert að hvorki í umræddri aðgerðaáætlun né áliti meiri hluta velferðarnefndar er fjallað um lausnir á því hvernig bregðast eigi við skorti á hjúkrunarrýmum. Það dugar ekki að vísa til þess að komi þessi áætlun til framkvæmda þá muni heimaþjónusta verða öflugri og því muni fólk síður þurfa að dvelja á hjúkrunarheimilum. Slíkt er óskhyggja og tekur ekki á þeim vanda sem þegar er til staðar og virðist ætla að verða viðvarandi. Þörf er á fleiri hjúkrunarrýmum og það strax. Öll framtíðaráform um bætta heimaþjónustu og dagdvöl eru góðra gjalda verð en taka í engu á þeim vanda sem þegar er uppi. Jafnframt verður að skoða slík áform í samhengi við þá tölulegu staðreynd að fjöldi þeirra sem verða 85 ára og eldri muni þrefaldast á næstu þremur áratugum.

Minni hlutinn skorar á hæstv. ráðherra að fara að vilja löggjafans og leggja fram frumvarp um stofnun embættis hagsmunafulltrúa eldra fólks sem fyrst.

Ég vil taka fram í þessu samhengi að það er margt gott í þessari áætlun, eins og hefur komið fram, en þetta er bara áætlun. Þetta er eiginlega áætlun hinna fallegu orða í hinum fallegu umbúðum en því miður er innihaldið mjög rýrt. Við verðum og eigum að horfa á hvernig staðan er í málefnum aldraðs fólks í dag. Hver er staðan? Hún er ekki góð. Hún er hreint skelfileg. Við erum með einstaklinga, öryrkja, og þegar þeir verða eldri borgarar, hvað verður um þá? Jú, við erum með á annað hundrað einstaklinga inni á hjúkrunarheimilum. Það hlýtur að hringja einhverjum bjöllum þegar talað er um að fólk vilji ekki fara á hjúkrunarheimili. Það eru biðlistar eftir að komast á hjúkrunarheimili. Er það biðlistafólkið sem vill ekki fara þangað inn? Ég bara gjörsamlega stórefast um það.

Við erum með Framkvæmdasjóð aldraðra en það hefur eiginlega verið hætt að nota hann. Það er verið að nota hann í þveröfugum tilgangi miðað við það sem á að vera nota hann í; til þess að byggja upp hjúkrunarheimili. Ef þau hjúkrunarheimili sem eru í dag duga okkur ekki og það eru biðlistar eftir að komast þangað inn þá segi ég guð hjálpi okkur í framtíðinni, vegna þess að ekki fækkar eldri borgurum, þeim á eftir að stórfjölga. Þá þurfum við að vera tilbúin, nema auðvitað við viljum bara stinga hausnum í sandinn og hugsa með okkur: Vonandi hverfur þetta. En vandamálin hafa sýnt fram á að þau hverfa ekki.

Ég vil benda á að í umsögn Öryrkjabandalagsins, sem var send inn vegna aðgerðaáætlunar í þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Bætt aðgengi fólks með heilabilun og aðstandenda þeirra að sérhæfðum stuðningi dugir skammt ef þjónustunotendur vita ekki að þjónustan sé til staðar.“ — Ef þjónustunotendur vita ekki að þjónustan sé til staðar.

„Brýnt er að tilgreina þann fagaðila sem ber ábyrgð á að upplýsa þjónustunotendur um allan þann sérhæfða stuðning sem standi til boða í upphafi. Þannig er stuðlað að því að allir einstaklingar fái sömu upplýsingar óháð búsetu og persónulegri þekkingu á velferðarkerfinu.

Við myndun starfshóps um endurskoðun laga og bráðabirgðaákvæðis á aðgerðaáætluninni er brýnt að þjónustunotendur og aðstandendur þeirra eigi fulltrúa í vinnu starfshópsins. Ljóst er að tillögur starfshópsins munu vega þungt við endurskipulagningu laga og annarra kerfisbreytinga. Því þarf að tryggja að þeir einstaklingar sem málið varða eigi sér málsvara á frumstigi endurskoðunar.“ — Og ég segi líka, á eftir og nú þegar; hagsmunafulltrúa aldraðra.

Og áfram, með leyfi forseta, segir Öryrkjabandalagið orðrétt:

„Skortur á hentugu búsetuúrræði, þjónustuíbúðum, íbúðakjörnum og hjúkrunarrýmum fyrir eldra fólk er langvarandi vandamál og brýnt að bregðast við með heildstæðri nálgun. Í 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um almennar skuldbindingar kemur m.a. fram að aðildaríkin skuldbinda sig til …“ — að þjónusta eldra fólk.

„Eldra fólk með fötlun er viðkvæmur hópur sem þarf að taka sérstaklega tillit til. Í 54. gr. sérstakrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá 2019 er tekið fram að eldra fólk með fötlun á ekki að vera vistað varanlega á stofnun í þeim eina tilgangi að fá heilbrigðisaðstoð. Því er mikilvægt að tillögur í lið A er snúa að samþættingu og lið B er snýr að virkni tilgreini hvernig aðgerðaáætlunin muni þjónusta þennan hóp.“ — Vistun hundraða fatlaðs fólks á hjúkrunarheimilum er ekki boðleg.

„Einn samtengdur þáttur er hluti einstaklinga undir 67 ára aldri sem býr á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk. Samkvæmt skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018 frá árinu 2022 búa 138 fatlaðir einstaklingar á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk sökum skorts á viðeigandi búsetuúrræðum. Við innlögn á hjúkrunarheimili og aðrar sjúkrastofnanir má gera ráð fyrir því að sjálfstæði, mannréttindum og lífsgæðum einstaklings sé fórnað. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9897/2018 er að finna gott dæmi um þetta. Þar er staðfest að stjórnvöld hafi ekki virt sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs einstaklings og að dvöl á hjúkrunarheimili geti takmarkað persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu með ýmsum hætti. Sú staða rýrir einnig verulega lífsgæði þess eldra fólks sem bíður eftir að fá varanlega búsetu á hjúkrunarheimili. Með því að tryggja fötluðum einstaklingum sem þurfa sértæka aðstoð viðeigandi búsetuúrræði losnar fjöldi rýma fyrir eldra fólk sem bíður eftir plássi á hjúkrunarheimili.“ — Og þarna vantar hagsmunaaðilann, þann sem á að sjá til þess og standa með réttindum þessa fólks; hagsmunafulltrúa aldraðra.

Virðulegur forseti. Þá er einnig umsögn frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Huga þarf að lífeyrismálum hjóna þegar annar aðilinn flytur inn á hjúkrunarheimili og hinn getur verr framfleytt sér þegar lífeyrisgreiðslur makans berast ekki lengur inn á heimilið. Gríðarlega mikilvægt að endurskoða. Of mörg dæmi um þetta og oft ungir einstaklingar.

Í greinargerðinni er fjallað um að efla eigi endurhæfingarþjónustu, en við bendum á að útfæra þurfi frekari aðgerðir til að raungera þann góða vilja.

Almennt má horfa enn frekar til aðkomu fjölbreyttari rekstrarforma að aðgerðum áætlunarinnar.

Skilgreiningar: Við veltum því upp hvort það þurfi ekki að skoða hópinn í tvennu lagi, annars vegar aldraðir og hins vegar veikir aldraðir. Hvenær er aldraður aldraður með „eðlileg“ einkenni öldrunar og hvenær er viðkomandi orðinn sjúklingur?“

Ég veit ekki á hvaða öld við erum en þarna erum við einhvers staðar aftur í forneskju með þetta furðulega fjárhagslega ofbeldi gagnvart öldruðu fólki þegar við sviptum það fjárræði við það að fara t.d. inn á hjúkrunarheimili, að aldraðir einstaklingar séu allt í einu orðnir — hvað? Annars, þriðja flokks þegn eða unglingur sem á að henda í einhverjum vasapeningum? Það bara gengur ekki upp að við skulum geta það og hafa það í lögum að við það eitt að þurfa að fara inn á hjúkrunarheimili þá missi viðkomandi vald á fjárhagslegum hagsmunum sínum. Og ef annar aðilinn fer inn, eins og kemur þarna fram, þá situr hinn eftir — hvað? Og ég tala nú ekki um eins og ástandið er í dag þegar viðkomandi væri kannski á leigumarkaðnum. Það þýddi bara hreinlega að sá einstaklingur mætti nú bara þakka fyrir að halda heimili sínu, sem ég væri mjög efins um.

Þess vegna segi ég að þetta er góð stefna, þetta er gott innihald, góðar umbúðir og góður hugur en það vantar aðalatriðin í þetta. Það vantar að sjá til þess í fyrsta lagi að þeir sem eiga að fá þessa þjónustu, eins og hefur komið fram, fái upplýsingar um hana, að þeir viti nákvæmlega rétt sinn og að nákvæmlega hver einasti aðili geti leitað réttar síns. En á Ísland.is þarf rafræn skilríki til að komast inn. Það geta ekki allir notað rafræn skilríki. Þar erum við bæði með aldrað fólk sem vegna veikinda sinna getur það ekki og líka fatlað fólk sem er orðið aldrað og getur það ekki heldur. Við verðum og eigum að tryggja að þessir einstaklingar hafi von. Jú, það er kannski hægt að hringja en við vitum hversu margir myndu hringja. Ég hringdi bara til þess að fá tíma á heilsugæslu hjá lækni. Ég var nr. 77 í röðinni. Klukkutíma seinna náðist inn. Hvað ætlarðu að segja við einstakling sem er hvorki í líkamlegu né andlegu ástandi til að standa í þessu? Þetta er bara algjört rugl. Þessi einstaklingur og aðstandendur hans sem vilja hjálpa ættu að geta snúið sér beint til umboðsmanns aldraðra sem myndi veita þessa aðstoð. Þetta er það sem við eigum að tryggja og þetta er það sem við eigum að sjá til að verði gert.

Ég vona svo heitt og innilega að þessi áætlun verði jú bara samþykkt en að í kjölfarið tökum við á þessum vanda sem er í dag þar sem við erum með aldrað fólk, 66 einstaklinga, í dýrustu úrræðum sem hægt er inni á sjúkrahúsi. Við erum með biðlista, við erum með kerfi þar sem margir aðstandendur bæði heilabilaðra og fólks með parkinson og fleiri sjúkdóma vita ekkert, hafa ekki hugmynd um hvert á að leita. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum með það á einum stað og vel upplýst og það viti allir á hvaða stað hagsmunafulltrúi aldraðra er og geti leitað þangað og fengið þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Við erum að tala um fólk sem er búið að borga skatta og skyldur alla sína ævi og ævikvöldið á að vera áhyggjulaust það sem eftir er. Það á að tryggja að allir sem þurfa á þjónustu að halda viti hvar hún er, fái upplýsingar um hvar hún er, og ef þeir fá ekki rétta þjónustu, að þeir geti kært það til hagsmunafulltrúa aldraðra.