Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið en ég ætla bara að bera af mér sakir. Ég hef bara aldrei talað niður til þessa fólks á nokkurn hátt í orði eða ræðu. Ég bara skil ekki hvernig hv. þingmaður fær þetta út. (Gripið fram í.)Ég er bara gjörsamlega gáttaður vegna þess að ég er eingöngu að tala um þá sem þurfa þjónustuna, sem eru komnir í þá stöðu að þeir þurfa þjónustuna. Ég er ekkert að tala um fólk sem er heilbrigt. Það þarf ekkert þessa þjónustu. Hvaða rugl er þetta? Ég segi bara fyrir mitt leyti: Hvað átti þessi starfshópur að gera? Jú, hann átti að fara eftir samþykki 54 þingmanna á þinginu um hagsmunafulltrúa aldraðra. Það stóð hvergi í þessari tillögu: Tveir fulltrúar á Ísland.is. Það er bara það sem þessi starfshópur bjó til og þar af leiðandi hunsaði hann það sem hann átti að gera. Það er staðreyndin. Og ef það er eitthvað slæmt, nú eða bara gott fyrir meiri hlutann þá er það bara hið besta mál. En á sama tíma eru þau ekki að gera það sem þessi starfshópur átti að gera og sjá til þess, sem 54 þingmenn samþykktu hérna, að það yrði hagsmunafullrúi aldraðra. Það samþykkti löggjafinn. Þannig að það er mjög skrýtin eftiráskýring að þessi starfshópur — ég man ekki hvað, gott í kroppinn? Nei, það var ekki alveg svona gott en það var eitthvað gott. Gott að eldast var hann kallaður. Ég man ekki hvað þetta var. Ég segi fyrir mitt leyti að það er bara fínt að hann fái að starfa en hann var bara að starfa á vegum meiri hlutans. Hann var alls ekki að gera það sem 54 þingmenn samþykktu, að útbúa það þannig að gengið yrði frá því að hagsmunafulltrúa aldraðra yrði komið á.