Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:24]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Fyrst dettur mér í hug ljóð sem ég hef margoft sungið og okkar ástkæri Björgvin Halldórsson færði okkur landsmönnum heim í stofu: Hvers virði er allt heimsins prjál? Ég spyr: Hvers virði eru 54 atkvæði þingheims? Hvers virði er það þegar löggjafinn gengur til samninga í þessu tilviki við stjórnarandstöðuþingflokk? Hvað þurfum við að gera, stjórnarandstöðuþingflokkar, til að fá yfir höfuð nokkurt einasta mál inn í atkvæðagreiðslu og í alvöruumræður, til síðari umræðu í þessu tilviki þar sem um er að ræða þingsályktunartillögu frá okkur í Flokki fólksins, eða þá frumvörp sem við mælum fyrir og þurfa þrjár umræður? Hvernig förum við að því að fá yfir höfuð þingsályktunartillögu eða frumvarp hér til fullnaðarafgreiðslu? Jú, við þurfum að semja um það við einræðisherrana sem er ríkisstjórnin sem ræður öllu hér frá A til Ö. Við erum bara auðmjúkir taglhnýtingar, má segja, vegna þess að við þurfum að sitja og standa nákvæmlega eins og þeim sýnist, burt séð frá því hvað okkur finnst. Ég er ekki að segja að við séum eitthvað að elta þá til að sjúga á þeim tærnar eða neitt slíkt, alls ekki. En við þurfum að sitja og standa nákvæmlega eins og þeim sýnist að stilla okkur upp. Ef þau kunna ekki við málin okkar fá þau aldrei að komast hingað inn. Ef þau kunna ekki við það sem við höfum fram að færa, alveg sama hversu góð málin eru, þá fá þau aldrei að komast hingað inn. Eina leiðin til að við náum máli í gegn er þegar kemur að þessum svokölluðu hrossakaupum fyrir jólafrí, fyrir páskafrí eða núna fyrir sumarfrí.

Þetta mál sem við höfum verið að berjast fyrir núna frá því að Flokkur fólksins fór á Alþingi og komst á Alþingi Íslendinga var um það að koma á laggirnar hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk. Við töldum ekki síður nauðsynlegt að eldra fólk fengi hagsmunafulltrúa heldur en sjúklingar sem við erum að berjast fyrir að fá líka hagsmunafulltrúa fyrir. Aðrir flokkar og allir ættu að standa að því af heilum hug. Börnin okkar hafa fengið umboðsmann og við eigum umboðsmann Alþingis sem hefur eftirlitsskyldur gagnvart okkur hinum og hvernig við erum að haga okkur í okkar störfum almennt og yfirleitt, hvort við erum að brjóta af okkur á einhvern hátt. En við erum að tala um það að löggjafinn samþykkti hér einróma 2021 að koma á laggirnar hópi, fela hæstv. félags- og barnamálaráðherra, nú félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni, að skipa starfshóp sem kemur eingöngu með fullbúið frumvarp um hagsmunafulltrúa eldra fólks. Um þetta var samið. Það var ekki samið um það að gjaldfella það sem við vorum að berjast fyrir, sem er algerlega heildstætt utanumhald um aldraða, heildstætt utanumhald. Það var enginn að tala um það hér, af 54 kjörnum fulltrúum sem greiddu því atkvæði, að ráðherra væri það í sjálfsvald sett og í lófa lagið að sniðganga vilja löggjafans með því að koma hér með gjaldfellda útgáfu af hagsmunafulltrúa. Sem sagt og einfaldlega: Hér á að ráða tvo fulltrúa á Ísland.is sem hátt í 60.000 eldri borgarar eiga að geta nýtt sér þjónustu hjá til þess að fá upplýsingar um það hvert þeir eigi að leita og hvaða þjónusta sé við þennan þjóðfélagshóp. Hagsmunafulltrúi eldra fólks var hins vegar af allt öðrum meiði. Það embætti var hugsað sem svo að hagsmunafulltrúinn tæki heildstætt utan um eldra fólk, hann myndi vernda eldra fólk og kortleggja þá sem byggju einir heima. Aldrei á sú staða að koma upp að eldri borgari deyi einn heima og finnist þar tveim vikum seinna af því að enginn vissi um hann og hann átti hugsanlega ekkert bakland. Staðan á aldrei að vera sú að eldra fólkið okkar einangrist félagslega, sé eitt heima og einangrist félagslega. Og það sem er endalaust verið að tala um þegar er verið að segja að það eigi að hjálpa fólki til að búa lengur heima — við skulum bara lofa því að ráða því sjálfu, ekki satt? Það eru mjög margir sem vilja bara alls ekki vera heima. Þeir einangrast heima þrátt fyrir að fá til sín þjónustu. Heimaþjónustan í dag staldrar við í hvað, 45 mínútur ef það er baðdagur? Hvað verður um hina 23 tímana í sólarhringnum? Ef þessi fullorðni einstaklingur hefur ekki bakland er hann bara einn heima. Það er ekki flóknara en það.

Mér er gjörsamlega misboðið hvernig framkvæmdarvaldið er að vaða yfir löggjafann á skítugum skónum með því að gjaldfella þetta embætti hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk sem þingið samþykkti einróma. Þessi ályktun, aðgerðaáætlun, sem liggur núna frammi má vera hliðstæð en það væri ekki einu sinni þörf á henni ef við hefðum fengið hagsmunafulltrúa eldra fólks, ef það hefði verið frumvarpið sem hæstv. ráðherra hefði komið með en hann gerði það ekki. Eins og ég segi aftur, hann tekur þriggja manna starfshóp og setur hann skör ofar en vilja löggjafans. Við hérna 54 aumir þjóðkjörnir fulltrúar, löggjafarvaldið sjálft, erum sett bara einhvers staðar í tröppu fyrir neðan einhvern starfshóp sem gjörsamlega sniðgengur skýran vilja löggjafans um að koma með frumvarp sem gerir grein fyrir því hvað embætti hagsmunafulltrúa aldraðra á að gera og hvernig á með það að fara. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja þetta. Og að vera endalaust að koma með eitthvað á blaði, vitandi að það er raunveruleg staða úti í samfélaginu núna sem er ekki hægt að sætta sig við — það er eins og með fjármálaáætlun þessarar ágætu ríkisstjórnar fyrir árin 2024–2028, það gerist bara einhvern veginn og einhvern tíma. Þetta á bara allt að verða frábært einhvern tíma seinna, bara ekki núna.

Við í Flokki fólksins, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson og samflokksmaður minn kom réttilega inn á áðan, komum með sérnefndarálit um þessa aðgerðaáætlun. Við munum ekki leggjast gegn aðgerðaáætluninni en mikið ofboðslega er hún aum. Ég get ekki sagt annað. Það er aumt að finna fyrir því hvernig valdníðslu er endalaust beitt. Þetta er ekkert annað og framkvæmdarvaldið á ekki að voga sér að ganga svona gjörsamlega í berhögg við skýran og skorinorðan vilja löggjafans. Það á ekki að eiga sér stað.

Ég er hins vegar algerlega pass gagnvart þessu, virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða úrræði við höfum eða hvort við höfum einhver úrræði þegar við fáum svona spark beinustu leið í afturendann eins og hæstv. ráðherra er að gefa okkur núna, löggjafanum, í sambandi við þetta embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Það getur ekki orðið skýrara, virðulegi forseti. Það getur ekki orðið skýrara en það sem kom fram í þingsályktunartillögunni sem hér var samþykkt. Það stóð skýrum stöfum að ráðherra yrði falið að skipa starfshóp sem myndi koma með frumvarp, fullgert frumvarp, nákvæmlega um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. En hér erum við sem sagt að fá aðgerðaáætlun um einhverja tvo símsvara á Ísland.is. Alveg eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson benti á áðan þá er þjóðin að eldast og mjög stór hluti af þjóðinni hefur ekki enn þá náð neinu valdi á hinu stafræna Ísland, engu. Það er ekki með rafræn skilríki, vill ekki fara í tölvu, vill ekki .is, það getur ekki farið í heimabanka, getur ekki farið inn á Heilsuveru, kemst ekki inn á Ísland.is. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í þessari aðgerðaáætlun? Skella þeim öllum á skólabekk og reyna að setja á námskeið í tölvu og stafrænum lausnum? Er það málið? Þetta er algerlega galið. Ég get ekki annað sagt.

Þrátt fyrir að greiða ekki atkvæði gegn þessu máli, þegar það verður afgreitt, þá mun ég ekki liggja á mínum skoðunum hvað varðar þetta ofbeldi sem löggjafinn er að verða fyrir af hendi framkvæmdarvaldsins. Ég skora á hæstv. ráðherra að standa við það sem honum var falið að gera, að samhliða því sem kemur fram í þessari aðgerðaáætlun eigi hann eftir að skila því inn í Alþingi Íslendinga sem við óskuðum eftir og var samþykkt hér einróma. Hann á eftir að skila hingað fullbúnu frumvarpi um nákvæmlega það sem við báðum um, hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk. Sú lágmarksvirðing sem við getum sýnt þeim er að taka utan um þau þegar þau eru orðin fullorðin og gera allt það besta sem við mögulega getum fyrir þau. En erum við að gera það? Nei, engan veginn. Ég segi bara: Hæstv. ráðherra ætti að sjá sóma sinn í því að koma með nákvæmlega það sem þingið samþykkti. Ég vil sjá hér fullmótað frumvarp um hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk því að það var nákvæmlega það sem þingsályktunartillaga Flokks fólksins gekk út á og það sem samþykkt var hér og við notuðum í þessum hrossakaupum til að reyna að fá mál í fulla afgreiðslu fyrir þinglok. Það er ekki skrýtið að manni sé misboðið, herra forseti. En þessi störf hér eru nánast hætt að koma mér á óvart.

Eins og kemur fram í minnihlutaáliti okkar er í engu tekið utan um þá nauðsyn sem þarf í sambandi við uppbyggingu hjúkrunarheimila. Núna eru 66 eldri borgarar fastir inni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það fengum við að vita fyrir rúmum tveimur vikum þegar fulltrúar frá Landspítalanum komu fyrir fjárlaganefnd. Það eru dýrustu legurými landsins. Svo er alltaf verið að tala um að reyna að hagræða í rekstri þegar við horfum upp á það og höfum gert í mörg ár hvernig hér er verið að spara aurinn og fleygja krónunni. Þvílík hagstjórn, þvílíkir snillingar. Ég get ekki annað sagt. Mér er misboðið, herra forseti.