Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:37]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg varðandi þessa aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk til næstu fimm ára. Ég verð að lýsa því yfir kannski bara strax í upphafi að ég gleðst yfir að það sé að verða til slík aðgerðaáætlun af því að það er þá hægt að vinna eftir henni og það er þá hægt að benda fólki á ef það er ekki að vinna eftir henni, að það sé ekki að standa sig í stykkinu. Þessi málaflokkur stendur mér nær eftir að hafa starfað í sveitarstjórnarmálum í mörg ár. Þetta er auðvitað bara mjög mikilvæg nærþjónusta, að sinna öldruðum íbúum, skiptir máli hvernig þetta er gert og greinilegt á þessu plaggi að það er búið að eyða talsverðum tíma fjölda fólks í að vinna þetta plagg.

Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og get þar af leiðandi ekki skilað nefndaráliti eða sett mig á nefndarálit. Mér var heimilað að lýsa því yfir að ég styddi það sem í þessari aðgerðaáætlun stæði. En ég gerði jafnframt fyrirvara um fjármögnun og biðlista á hjúkrunarheimili sem mér finnst ekki vera ávarpaðir og tek undir þau orð sem hafa fallið af hálfu þingmanna Flokks fólksins um að mér finnst að þann þátt vanti inn í þessa aðgerðaáætlun.

En nóg um það. Við sjáum þarna aðgerðaáætlun sem er í fimm efnisflokkum. Þarna er talað um samþættingu, virkni, upplýsingu, þróun og heimili. Allt eru þetta þættir sem skipta miklu máli og ég tala nú ekki um ef við byrjum bara á þessari samþættingu, hvernig við getum í raun og veru samþætt þjónustu við eldra fólk. Eins og við þekkjum er þjónusta við eldra fólk veitt bæði af sveitarfélögunum og ríkinu og oft og tíðum verða árekstrar þarna á milli. Það eru til grá svæði þegar kemur að því að veita þessa þjónustu. Ríkið segir að þetta sé félagsþjónusta og sveitarfélögin segja að þetta sé hjúkrunarþjónusta og svo er deilt um keisarans skegg, hver eigi að gera hvað. Hver er þá fórnarlambið í því? Auðvitað sá aðili sem þarf á þjónustunni að halda, þannig að samþættingin er mikilvæg og við getum þá treyst því að það sé verið að veita þjónustuna þeim aðila sem þarf á henni að halda.

Reykjavíkurborg skilaði umsögn um þessa aðgerðaáætlun sem er mjög efnismikil og farið yfir flesta þætti aðgerðaáætlunarinnar. Þar nefnir Reykjavíkurborg að samþætting heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu hafi hafist með tilraunaverkefni í borginni strax á árinu 2009. Samningar um heimahjúkrun milli Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins hafa síðan verið endurnýjaðir reglulega. Þarna er greinilega komin reynsla á þessa samþættingu sem önnur sveitarfélög ættu að geta notað sér en ég vil líka benda á að fyrir nokkrum árum síðan gerði Reykjanesbær svipaða hluti. Okkur þótti þá í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að það væru of mörg grá svæði þegar kæmi að þessari þjónustuveitingu og við værum oft á tíðum í ágreiningi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um hver ætti að veita þjónustuna. Niðurstaðan af því varð sú að sjúkrahúsið og starfsmenn Reykjanesbæjar, úr félagsþjónustunni, settust yfir málið og undirrituðu síðan í framhaldinu samning um þjónustuna við eldri íbúa, sem gerði það reyndar að verkum að Reykjanesbær þurfti að greiða meira til málaflokksins heldur en hann hafði áður gert. Það var bara fínt. Þá lá það bara fyrir með hvaða hætti ætti að veita þessa þjónustu og allir fengu þá þjónustu sem þeir þurftu á að halda og það er keppikeflið, að við náum utan um það hvernig við ætlum að veita þessa þjónustu.

Reykjavíkurborg bendir líka á svokölluð endurhæfingarteymi sem mér finnst vera mjög sniðug hugmynd, ef það er hægt að virkja slík endurhæfingarteymi þar sem þessir aðilar fara jafnvel bara saman á heimili fólks og veita þjónustuna. Þá er verið að skoða alla þætti sem þarf að skoða á sama tíma þannig að það sé ekki verið að veita einhverja tiltekna þjónustu núna og aðra seinna og svo sé þetta bara komið í einhverja vitleysu. Það er auðvitað spennandi ef það er hægt að búa til slík endurhæfingarteymi víðar en bara í Reykjavík.

Það er líka verið að tala um þróun dagdvalar, sem er svolítið skrýtið orð, dagdvöl. Þetta er svona leikskóli fyrir gamalt fólk. Þetta er nú frekar einhver dagþjónustustöð eða -miðstöð eða eitthvað slíkt. En auðvitað væri frábært ef það væri hægt að þróa þetta úrræði með einhverjum hætti þannig að fólk kæmi í þetta og nyti margháttaðrar þjónustu sem gæti hjálpað fólki og það farið svo heim til sín á kvöldin, bara eins og við hin sem færum í vinnu og kæmum svo heim. En þarna væri þessi tími nýttur til að byggja fólk upp og styrkja það til að takast á við hið daglega líf fyrir utan dagþjónustudvölina. Eitthvað nýtt er þarna á ferðinni sem heitir stuttinnlagnir sem gæti verið úrræði sem er rétt að horfa á og kannski spennandi að skoða. En ég er ekkert alveg viss um að það vegi þungt í öllu þessu stóra máli, sem er auðvitað bara utanumhaldið um þennan málaflokk.

B-liðurinn fjallar um virkni sem er auðvitað ótrúlega mikilvæg. Eins og hér hefur verið bent á þegar umræða um hjúkrunarheimili hefur farið fram eru bara margir einmana heima hjá sér og þurfa kannski annars konar húsnæðisúrræði heldur en gamla heimilið þegar makinn er jafnvel fallinn frá. Þannig að það er mikilvægt að auka virkni fólks. Ég held t.d. fyrir mig sem hef nú haft tónlist sem áhugamál frá því ég var lítill strákur að ég myndi gjarnan vilja vera virkur í því fram eftir, á meðan ég tóri, og um að gera að skapa möguleika á því að auka virkni eldra fólks.

Mig langar að nefna sem dæmi að ég var formaður verslunarmannafélagsins heima á Suðurnesjum í mörg ár og fékk einu sinni símtal frá eldri borgara sem hafði borgað í stéttarfélagið í áratugi og aldrei þurft á þjónustu félagsins að halda. Hann hringdi einu sinni í mig og sagði: Heyrðu, nú vil ég fá eitthvað út úr félaginu. Nú erum við félagarnir að fara að safna fyrir biljarðborðum og nú vil ég að verslunarmannafélagið borgi eitt borð. Ég fékk stjórnina til þess að gera það og þarna sameinast þessir drengir mörgum sinnum í viku og spila ja, ég kann ekki að nefna þetta, snóker eða biljarð. Þetta er fínasta áhugamál og góður félagsskapur fyrir þennan hóp fólks sem býr sér til virkni á þennan hátt. En það voru þeir sjálfir sem höfðu frumkvæði að því að gera þetta þannig að auðvitað getur fólk líka haft frumkvæði að virkni og maður sér auðvitað bara víða þar sem eru félagsmiðstöðvar fyrir eldra fólk að þar er mikil virkni, bæði alls konar félagsstarfsemi, bingó, ræðuhöld, tónlistarviðburðir, kórar og fleira. Þetta skiptir allt máli.

Svo auðvitað þekkir maður að margir eldri menn sem hafa ekki kunnað neitt annað en að vinna vita bara ekkert hvað þeir eiga að gera og kunna ekki að eyða tíma sínum. Það þarf auðvitað að hjálpa þeim aðilum að koma sér í einhverja virkni. Þannig að þetta er auðvitað stórt og mikið mál. Þegar við heyrum sögur af því að áfengisneysla eldra fólks sé að aukast þá staldrar maður við og veltir fyrir sér: Hvernig stendur á því? Er það vegna þess að fólki leiðist? Þarf að skapa annars konar umhverfi fyrir fólk þannig að það leiti ekki bara í flöskuna þegar því leiðist, það hafi þá eitthvað við að vera, einhver áhugamál?

Ég ætla ekki að eyða einhverjum tíma í tækniþróunina og það sem hér hefur verið nefnt, Ísland.is og fleira sem er líka í sjálfu sér mikilvægt, og mikilvægt að þróa nýja tækni í öldrunarþjónustu sem skiptir auðvitað máli og við þurfum kannski að efla okkar tæknimenntaða fólk til að fara frekar að búa til einhver úrræði fyrir eldra fólk í staðinn fyrir að vera að búa alltaf til tölvuleiki. Við þurfum með einhverjum hætti að búa til hvata á þann hátt.

En mig langar aðeins að nefna heimili sem ég heyrði hér áðan að var bitbein á milli framsögumanns og þingmanna Flokks fólksins. Ég geri fyrirvara við þessa áætlun vegna þess að ég átta mig ekki alveg á því hvernig stendur á því, maður sér það bara líka í fjármálaáætluninni, að draga á svona mikið úr fjármagni til uppbyggingar hjúkrunarheimila? Svarið sem ég fæ er að við ætlum að þjónusta fólk svo mikið heima. Fólk sem er nú þegar inni á spítölunum er ekkert að fara heim til sín en það gæti ef vel er á haldið farið á hjúkrunarheimili. Það á að spara svo mikið með því að senda fólk ekki á hjúkrunarheimili. En við getum líka sparað með því að senda fólk af spítala yfir á hjúkrunarheimili, þannig að uppbygging á hjúkrunarheimilum þarf að eiga sér stað samhliða öllu öðru. Það skiptir máli fyrir fólk að þetta úrræði sé til staðar. Þrátt fyrir að hér sé staðhæft að fólk vilji búa heima eru ekki allir í þeirri stöðu, m.a. vegna þess að þeir hafa misst maka sinn og þeim leiðist bara. Þeim leiðist að búa heima, þeir eru einir og þeir þurfa einhvern félagsskap. Þá má líka spyrja sig: Voru það mistök þegar við aflögðum elliheimilin? Gerðum við mistök með því að breyta öllum elliheimilum á landinu í hjúkrunarheimili? Hefðum við kannski átt að hafa það búsetuúrræði áfram og bæta hjúkrunarheimilunum við? Eða þurfum við kannski ekki að fara bara til baka á einhvern hátt og búa til einhvers konar úrræði í líkingu við gömlu elliheimilin, þar sem fólk hefði sína aðstöðu, 40–50 m², en svo væru sameiginlegir salir og matsalur og fleira, þannig að fólk sem er komið vel á aldurinn en er hraust hefði þá möguleika á þessari virkni, hefði möguleika á aukinni þjónustu. Ég held að við ættum að skoða þetta. Það er ekki bara það að senda þjónustu inni á heimilin. Það þarf líka að skoða möguleika fólks til búsetu, aðra en þá að búa heima. Það bara geta það ekki allir. Ég þekki það bara af eigin raun. Það geta ekki allir.

Virðulegur forseti. Að lokum verð ég að segja að mér finnst þetta naumt skammtað þegar verið er að tala um kostnaðarmat aðgerðaáætlunarinnar. Þar er nefnt að heilbrigðisráðuneytið ætli á þessum tíma að eyða í þetta 960 milljónum og félagsmálaráðuneytið 980, samtals eigi að eyða í þetta tæpum 2 milljörðum eða 1.940.000 kr., en þarna stendur í e-lið ekki neitt, heimili 0 kr. Maður spyr sig þá — það á ekkert að gera hvað varðar heimili á næstu fimm árum. Þessi ríkisstjórn sem nú situr skilar algerlega auðu þarna. Við ætlum að vera búin að setja hana af þegar þessi áætlun verður búin. Á tíma þessarar ríkisstjórnar er ekkert að gerast hvað varðar heimilin af því að það er ekki verið að áætla neinn kostnað í þetta. Manni finnst skrýtið að gera ráð fyrir því að það þurfi ekki að eyða fjármunum í það. Ég rakti það ágætlega, fór yfir það í viðræðum við hæstv. heilbrigðisráðherra þegar við vorum að fara yfir fjármálaáætlun, að það er verið að draga saman útgjöld til hjúkrunarheimila. Manni finnst það skrýtið þegar við á sínum tíma bjuggum til Framkvæmdasjóð aldraðra, sem átti að fara í uppbyggingu á húsnæði eða búsetuúrræðum fyrir eldra fólk, að það sé bara verið að taka það í eitthvað allt annað. En þetta hefur ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra stundað. Hann hefur tekið greiðslur, sérstakar greiðslur sem hafa verið ákveðnar í tiltekin verkefni, og fært þær inn í ríkissjóð og svo er bara úthlutað úr ríkissjóði einu sinni á ári. En þetta eru sérgreiðslur sem eiga að fara — maður þekkir það hafandi verið í Atvinnuleysistryggingasjóði, þar voru peningarnir bara teknir og settir inn í ríkissjóð. Það er búið að samþykkja það að við borgum nefskatt í Framkvæmdasjóð aldraðra en við vitum að það hefur komið í ljós að það er ekkert verið að nýta það nema að hluta til í uppbyggingu á búsetuúrræðum fyrir eldra fólk. Það þarf að laga og þetta kostnaðarmat þarf að endurskoða.