Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:54]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir sína framsögu. Við erum með nefndarálit bæði meiri hluta og minni hluta velferðarnefndar. Mig langar að beina spurningu til hv. þingmanns. Nú er appvæðingin góð og gild, við þekkjum það úr bankakerfinu, þjónustukerfinu og heilsukerfinu að þetta er allt komið í öpp og öpp eru frábær, internetið er frábært fyrir þá sem kunna á það. En að gefa sér að allir kunni á það og öllum líði vel með það og hafi tök á því er eins og að gefa sér að allir séu með bílpróf eða allir kunni ensku. Við þurfum að taka tillit til þeirra sem hér um ræðir. Stór hluti landsmanna er á þeim aldri að hafa ekki alist upp við slíka tækni og á erfitt með að tileinka sér hana. Tökum tillit til þeirra og tökum tillit til þess að það er til eitthvað sem heitir tæknikvíði sem á að taka tillit til, m.a. þegar eldri borgarar eru annars vegar.

Nú er afrakstur þings metinn á fjögurra ára fresti og gengið til kosninga að nýju. Munurinn á minni hluta og meiri hluta er stundum bara einn eða tveir þingmenn og ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vinna með fólki frekar en á móti því en þeir sem treyst er fyrir því að taka að sér ríkisstjórn og vera meiri hluti þingsins hafa líka fallist á það að taka tillit til þeirra sem tilheyra minni hlutanum. Nú er Flokkur fólksins stofnaður sérstaklega til að gæta hagsmuna eldri borgara, öryrkja og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Eftir fjögurra ára starf á síðasta kjörtímabili var niðurstaða þingsins sú að Alþingi ályktaði að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semja skyldi frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. (Forseti hringir.) Nú liggur fyrir að ekki hefur verið brugðist við því heldur er komið eitthvað annað, skylt. (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn sammála því að við séum að tala um tvo ólíka hluti og það eigi eftir að efna fyrirheitin sem gefin voru 2021?