Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:56]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Appvæðing, tæknivæðing og tæknikvíði. Ég minnist þess þegar ég var lítill strákur og afi minn sagði: Bubbi minn, geturðu ekki kveikt fyrir mig á útvarpinu? Hann treysti sér ekki einu sinni til að kveikja á útvarpinu. Manni þótti það svo sem alveg sjálfsagt. Ég á 93 ára gamla móður sem er inni á Facebook og sendir okkur skilaboð á Messenger þannig að það er allur gangur á þessu. Við viljum tæknivæðast og við viljum að það sé framþróun í samfélaginu en auðvitað eru alltaf einhverjir sem ná ekki að tileinka sér breytingar, það liggur bara í hlutarins eðli. En við ætlum ekki að hætta samt að þróa okkur áfram þó að það séu alltaf einhverjir sem nái ekki tökum á þeim breytingum sem eiga sér stað. Við þurfum þá bara að fylgja því eftir og hugsa um að þeir njóti þess sem kemur í gegnum tæknina.

Varðandi hagsmunagæsluaðila eldra fólks eða umboðsmann eldra fólks þá skil ég reiði þingmanna Flokks fólksins hvað það varðar. Ég vil bara minna á að þingmenn Viðreisnar fengu líka samþykkt á sínum tíma að sálfræðimeðferð yrði hluti af sjúkratryggingum. Það hefur ekki enn litið dagsins ljós. Sú ríkisstjórn sem situr núna og sat á síðasta kjörtímabili hefur nú aldeilis ekki staðið við allt sem hún hefur tekið þátt í að gera. En ég held að það væri mjög gott ef umboðsmaður eldra fólks yrði til.