Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:59]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég vil líta á þetta dálítið eins og það fyrirbrigði sem við þingmaður þekkjum báðir og heitir tónlistarmennska, hljómplötuútgáfa. Þar er stundum barist um það hver fær að eiga lög á breiðskífunni og til að halda hópnum góðum og halda honum saman þá skal tekið tillit til allra sem gefa sig að lagasmíðum. Ef gefin eru fyrirheit um að þú skulir eiga eitt lag á breiðskífunni að afloknu svo og svo löngu samstarfi þá skal það standa, ella er hópurinn í uppnámi og stemningin í algjöru uppnámi. Nú tel ég, virðulegi forseti, gagnvart þeim meiri hluta sem hefur verið hér í rúmlega fimm ár á þessu þingi, að þetta sé fordæmisgefandi mál, að það sé staðið við fyrirheitin. Ef þetta lag eða þessi lög, þessi umboðsmaður aldraðra, er afrakstur fjögurra ára starfs heils þingflokks og um það er samið þá skal við það staðið. Eftir höfðinu dansa limirnir. Ef við ætlum að venja okkur á það að láta menn komast upp með það að heita einhverju, gera díl sem er síðan ekki staðið við, þá er samfélag okkar í uppnámi. Persónulega met ég fólk eftir orðheldni fyrst og fremst. Sértu maður orða þinna ber ég virðingu fyrir þér. Sértu það ekki þá ætla ég ekki að halda samskiptum áfram. Til að við höldum andanum hér á þessum vinnustað og séum raunverulegt höfuð sem limir samfélagsins skulu dansa eftir þá er þetta lykilmál. Við vitum mörg dæmi um ágætishugmyndir, ágætisfrumvörp úr minni hluta sem síðan verða innblástur fyrir frumvörp meiri hluta. Gott og vel. Þetta er ekki eitt af þeim. Þetta skal ekki kallast að efna fyrirheit. Menn komast ekki upp með svona lausn, með fullri virðingu, ég er ekki að tala lausnina niður en þetta er bara ekki það sem var heitið og við köllum eftir því að við það verði staðið. Er þingmaðurinn mér sammála um þá kröfu?