Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:03]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér og taka undir með samflokksmönnum mínum í Flokki fólksins. Það er miður að ráðherra málaflokksins hyggist víkja frá skýrum vilja Alþingis og noti þessa aðgerðaáætlun sem hér er til umræðu sem skjöld gegn gagnrýni. Aðgerðaáætlunin sjálf er um margt góðra gjalda verð en kemur engan veginn í staðinn fyrir stofnun embættis hagsmunafulltrúa eldra fólks. Það má vel vera að hinar ýmsu aðgerðir hafi sömu markmið og stefnt var að þegar Alþingi ályktaði um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks, en það er ekki hægt að leggja þessar aðgerðir að jöfnu við það að stofnað verði embætti sem hafi þessi verkefni sem meginmarkmið; hagsmunagæslu í þágu eldra fólks og upplýsingagjöf og aðstoð til eldra fólks sem hjálpar því að sækja þá þjónustu sem það á rétt á og best hentar hverju sinni.

Mig langar að vitna í tvær umsagnir um málið frá því það var fyrst lagt fram árið 2019. Sú fyrri er merkt Reykjavíkurborg en þar stendur:

„Öldungaráð fagnar tillögunni en með henni er lagt til að fela félags- og barnamálaráðherra herra að leggja fyrir árslok 2020 fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Ráðið tekur undir þau sjónarmið sem reifuð eru í greinargerð með tillögunni um að lög og reglur um málefni aldraðra eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Þá sé þjónusta við aldraða ýmist á höndum ríkis, sveitarfélaga eða einkaaðila og tilkoma embættis hagsmunafulltrúa aldraðra sem myndi meðal annars hafa góða yfirsýn yfir regluverk um málefni aldraðra á öllu landinu, sinna hagsmunagæslu og leiðbeint um réttindi þeirra og skyldur, yrði því jákvæð.“

Í umsögn Sambands fyrirtækja í velferðarþjónustu stendur, með leyfi forseta:

„Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu lýsa yfir ánægju sinni með framkomna þingsályktunartillögu og taka undir þau sjónarmið sem þar koma fram um þörf fyrir umboðsmann eða málsvara fyrir eldri borgara í samfélaginu, sem gætir hagsmuna þeirra og leiðbeinir þeim í því flókna kerfi sem er til staðar í málaflokknum. Slík þingmál hafa áður verið lögð fram á Alþingi, í misjafnri útfærslu og af ýmsum þingmönnum og telja samtökin mikilvægt að það hljóti brautargengi.“

Ég vek athygli á því að þessi þingsályktunartillaga var fyrst lögð fram árið 2019 og það eru tvö ár síðan hún var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi Íslendinga á vordögum 2021. Þessi tillaga um hagsmunafulltrúa aldraðra var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum en svo virðist sem ráðherra málaflokksins hafi ákveðið að setja þetta verkefni á hilluna og setja eigin áherslur í forgang. Hann gengur þannig þvert gegn skýrum vilja Alþingis því eins og áður sagði var þingsályktunartillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þeirra 54 alþingismanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni. Eru samþykktir Alþingis ekki meira virði en þetta?

Eftir að Alþingi samþykkti fyrrgreinda þingsályktun leið heilt ár þar til ráðherra skipaði starfshópinn. Hann var ekki skipaður fyrr en í apríl 2022, eftir að frestur til að skila ráðherra drögum að frumvarpi sem Alþingi hafði kveðið skýrt á um með þingsályktuninni rann út. Þegar starfshópurinn lauk vinnu sinni var formanni Flokks fólksins boðið á fund með ráðherra og formanni starfshópsins. Þar kom í ljós að formaður starfshópsins hugðist ekki skila ráðherra frumvarpi heldur ætlaði að mæla með því að öll slík fyrirheit yrðu sett á ís þar til þessi aðgerðaáætlun sem hér er til umfjöllunar væri komin til framkvæmda og hægt að meta árangur hennar. Það er miður að ráðherra málaflokksins hafi ekki hugsað sér að framfylgja skýrum vilja löggjafans þrátt fyrir að allur þingheimur standi að baki því að eldra fólki skuli tryggður hagsmunafulltrúi.