Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Friðrik Friðrikssyni fyrir hans innilega fallegu ræðu, ég get nú ekki sagt annað. Mikið væri nú gaman að vera til ef sú fallega sýn sem hv. þingmaður hefur dregið hér upp væri raunveruleikinn. Hann t.d. nefnir í lokin að við ættum skilyrðislaust að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir frumvörpum, frá því árið 2017 þegar hann kom á þing, um að hjálpa öryrkjum til sjálfshjálpar með því að gefa þeim kost á að vinna án þess að skerða þá svoleiðis niður úr öllum rjáfrum að þeir hreinlega treysta sér ekki til þess að reyna fyrir sér á vinnumarkaði. Við höfum líka komið með frumvörp í nákvæmlega sömu átt fyrir aldrað fólk, eldra fólk sem stendur höllum fæti og myndi kannski vilja vinna lengur en getur það ekki vegna skerðinga. Ég held að það séu um 84% sem eru tekin af þeim ef þau reyna fyrir sér á vinnumarkaði og eru komin yfir 25 þús. kr., ef þau eiga lífeyrissjóð, lífeyrissjóðsgreiðslurnar byrja að skerðast eftir 25.000 kr. Ég get ekki einu sinni gert mér þetta í hugarlund. Frítekjumarkið var sett í 200.000 kr., þetta hreina frítekjumark, en það er önnur saga. Við erum jú með þakið í Tryggingastofnun. Það getur enginn grætt á því í rauninni. Það fer enginn það hátt. Fólk sem er að reyna að mæla þessu bót, segir kannski: Hvað, ætlið þið þá bara að láta Tryggingastofnun borga fullar greiðslur til fullvinnandi fólks? Nei, það er ekki svoleiðis. En spurningin er þessi, hv. þingmaður, af því að ræðan var náttúrlega falleg — nú vorum við með þingsályktun sem ég er búin að tala um hér sem var samþykkt og meira að segja, ef ég fer með rétt mál, þá greiddi hv. þingmaður atkvæði með henni nema hann hafi ekki verið í þingsalnum því þá hefur hann verið löglega afsakaður hvað það varðar en hver einasti aðili hér greiddi atkvæði með því að hér yrði settur á stofn starfshópur sem kæmi með frumvarp um hagsmunafulltrúa eldra fólks. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Finnst þér eðlilegt að gjaldfella það svona rosalega með tilliti til þess hvað þér þykir vænt um eldra fólkið okkar og hefur mikinn metnað til þess að við tækjum utan um það með virðingu og vinsemd?