Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:20]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland sérstaklega fyrir fyrir andsvarið. Nei, ég held að ég hafi reyndar ekki verið hér í þingsal þegar hún var ákveðin en ég hef samt lesið hana. Það er margt mjög áhugavert í henni. Auðvitað get ég ekki svarað fyrir ráðherra málaflokksins á þessum tíma en ég verð að segja það að þjónusta við eldra fólk skiptir mjög miklu máli og það er sannarlega komið til móts við ýmislegt í þessari aðgerðaáætlun sem þarf að hrinda í framkvæmd. Ég ætla ekkert endilega að ganga svo langt að segja að hún svari öllu því sem var í umræddri tillögu Flokks fólksins. Ég er kannski ekki dómbær á það hér og nú en það má vel vera að slík vinna sé í gangi innan ráðuneytisins enn, ég bara þekki það ekki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum áfram og það kann að vera að á seinni stigum fari slík vinna fram, verði partur af þessari áætlun. Mér finnst eðlilegt að skoða það og meta þörfina. Að þessari aðgerðaáætlun kom sannarlega stór stýrihópur fagfólks og þekkingarfólks og ég vænti þess með þær ályktanir sem bornar eru upp í þingsal og samþykktar að það sé verið að skoða að útfæra þau markmið sem í þeim liggja. Hvort það sé nákvæmlega eftir því sem lagt er til þekki ég ekki alveg en ég myndi halda að markmiðin þyrftu að nást. Ég verð að bera virðingu fyrir því ef menn vilja fara aðrar leiðir að sama markmiði. En upp úr stendur að ég stend við þau orð mín að ég held að það sé mjög mikilvægt að við tryggjum þjónustu fyrir eldra fólk til framtíðar í takt við þær þarfir sem liggja fyrir.