Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir hans ágætu framsögu, sem ég um margt tek undir en að öðru leyti ekki. Venjan er sú að ég hef haft yndi af því að hlusta á hv. þingmann alveg þangað til hann segir að við í Flokki fólksins séum nú einhvers staðar úti á túni þar sem við tökum þessari aðgerðaáætlun ekki meira fagnandi en raun ber vitni. Í beinu framhaldi af því langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann myndi vera glaður með þetta ef hann hefði fengið þingið eins og það leggur sig, löggjafann, til að samþykkja þingsályktun sem felur ráðherra að koma með frumvarp um hagsmunafulltrúa aldraðra sem í rauninni tekur mörgum sinnum meira utan um málaflokkinn en nokkurn tíma þessi aðgerðaáætlun, sem er bara eitthvað sem er komið á prent, eitthvert framtíðarstef um eitthvað frábært? Það er í rauninni ólíku saman að jafna, hagsmunafulltrúa og þessari aðgerðaáætlun. Það eina sem hagsmunafulltrúi aldraðra á sammerkt með þessari aðgerðaáætlun er þar sem verið er að tala um upplýsingar og þjónustu við eldra fólk. En allt hitt er umfram hjá hagsmunafulltrúunum; að kortleggja líðan eldra fólks, hafa frumkvæði að því að stíga inn og koma í veg fyrir einangrun, vanlíðan og í raun tryggja að aldraðir eigi áhyggjulaust ævikvöld eins og kostur er. Nú vitum við hversu margir eldri borgarar okkar eru. Og ég spyr þá líka hinnar spurningar minnar: Telur hv. þingmaður að tæplega 60.000 aldraðir geti nýtt sér Ísland.is og þessa tvo starfsmenn sem á að ráða þangað til þess að svara spurningum þeirra?