Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir svarið. Það sem bærist með mér og okkur í Flokki fólksins er að við hugsum til þess að nú er verið að tala um tæpa 2 milljarða sem á að setja strax í þessa aðgerðaáætlun. Mér finnst í rauninni við vera að taka hér eitthvert hliðarspor sem sé algerlega óþarft. Allt það sem þetta hliðarspor, þessi svokallaða aðgerðaáætlun, er að boða er nákvæmlega í takti við það sem myndi falla undir embætti hagsmunafulltrúans sem mun ráða til sín fagfólk og einstaklinga til að koma til móts við alla þjónustuþörf og upplýsingaþörf og bjóða alla þá alúð og félagslegan stuðning sem eldra fólk þarf. Mér finnst við oft vera að gera nákvæmlega þetta, taka fjármuni í svona hliðarspor, eins og ég kalla þetta, þegar við höfum í raun alla heildarmyndina fyrir framan okkur og löggjafinn er búinn að samþykkja það eins og hv. þingmaður segir jafnvel sjálfur. Hvers vegna förum við ekki að vilja löggjafans? Telur hv. þingmaður eitthvað eðlilegt við það að framkvæmdarvaldið skuli stíga svona freklega inn í skýran vilja okkar hér, 54 þingmanna, og bara henda hagsmunafulltrúunum út um gluggann? Það er ekkert sem bendir til þess að ráðherra sé að halda áfram að vinna með það mál, ekki neitt, akkúrat ekki neitt, því miður. Ég vona svo sannarlega að þar hafi ég alveg kolrangt fyrir mér en hef nú eiginlega stærri ugg um að því miður hafi ég rétt fyrir mér.