Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[18:10]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen fyrir sitt innlegg í þessa umræðu. Nú þekki ég þann góða þingmann að því að vera manneskja orða sinna og þetta er prinsippmál sem ég vík hér að öðru sinni í dag, uppskera Flokks fólksins. Hann er stofnaður er til að standa vörð um hagsmuni eldra fólks, öryrkja og annarra sem þurfa virkilega á aðstoð að halda. Uppskera fjögurra ára starfs hans árið 2021 voru fyrirheit allra þingmanna sem voru staddir hér á þeim þingdegi um hagsmunafulltrúa aldraðra, umboðsmann aldraðra. Samkvæmt formanni Flokks fólksins segir ráðherra málaflokksins í dag að það skuli sett á ís meðan þetta verði notað sem einhvers konar tilraunaverkefni. Hér er um tvennt ólíkt að ræða. Ég kýs að líta á það svo á að með þessu ágæta máli, sem ég er sammála flestum um að sé fyrirtaksskref í rétta átt, sé ekki verið að efna þau fyrirheit. Fjögurra ára starf fjögurra, sex eða þess vegna tveggja þingmanna leiðir til einnar niðurstöðu, það er uppskera starfsins, vinnunnar, þúsunda klukkustunda. Er þingmaðurinn mér sammála um það að hér sé enn óefnt það loforð sem gefið var hér um umboðsmann eldri borgara?