Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[18:12]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar og falleg orð í minn garð. Ég ætla ekki að svara fyrir hönd ráðherra varðandi fyrirspurn þingmannsins enda ekki fær um það, það er betra að hann spyrji hann beint sjálfur. Mig langar samt að koma inn á það að í þessum starfshóp sem ég ræddi um áðan sem ég starfaði í var einmitt lagt til að það yrði fundinn hagsmunaaðili eldra fólks, það yrði samþykkt hér á þinginu. Hér hefur verið talsverð umræða um þetta, að eldra fólk skorti talsmann sem hefur formlega stöðu í stjórnsýslunni og gætir hagsmuna eldra fólks, sem er afar mikilvægt og eflaust hægt að einfalda hluti og ferla mikið með því. Ég er hlynnt því, svo það sé sagt hér í pontu. Mér skilst og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá skipaði félags- og barnamálaráðherra á sínum tíma starfshóp sem átti að móta tillögur um framtíðarskipulag varðandi réttindagæsluaðila fyrir aldraða og þá var líka verið að ræða hvort það þyrfti sérlög um réttindagæsluaðila fyrir aldraða, svipað eins og er gert fyrir öryrkja, ég þekki það ekki alveg, en það átti þá að fylgja þessari tillögu sem þessi starfshópur átti að vinna. Ég veit ekki hvort það hafi komið einhver niðurstaða í þetta en ég er alveg tilbúin til að leggja hönd á plóg og tala fyrir þessu máli því að ég er svo sannarlega sammála hv. þingmanni.