Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[18:14]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör, sem eru því miður aðeins of sjaldgæf í þessum sal þegar spurt er. Ég fagna því að þingmaðurinn er sammála því að það er full þörf á margumræddum hagsmunaaðila. Við erum með umboðsmann Alþingis, við erum með umboðsmann barna, við vorum meira að segja með umboðsmann íslenska hestsins til skamms tíma. Hér er verið að tala um umboðsmann þeirra sem ekki hafa heilsu, tækniþekkingu eða getu til að verja sig eða afla sér þeirra upplýsinga og þess stuðnings sem æskilegur er og nauðsynlegur. Ég yrði fyrir miklum vonbrigðum með ráðherra málaflokksins sem hér um ræðir ef reynt yrði að víkja frá því sem var hreint og klárt loforð, fyrirheit. Þetta var díllinn við lok þingsins. Þessu var mjög fagnað í Flokki fólksins og alls staðar þar sem skjólstæðinga Flokks fólksins er að finna. Það væri hreint afleitt til afspurnar ef menn ætluðu að víkja sér undan fyrirheitum með því að koma með eitthvað allt annað en það sem um var samið. Ég treysti því að hv. þm. Ingibjörg Isaksen verði í liði með okkur um að tryggja að staðið verði við stóru orðin, því að þetta eru stór orð. Þetta var ríkuleg uppskera mikils starfs, tuga og hundruð klukkustunda vinnu. Það var sammælst um þetta og orð skulu standa. Erum við ekki sammála um það?