Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[18:16]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir hans andsvar. Það er engum dulið hversu mikið hans flokkur berst fyrir eldra fólki, það verður bara að segjast og hrósa fyrir það. En hér erum við líka að ræða aðgerðaáætlun. Það hefur lengi verið kallað eftir stefnu í málefnum eldra fólks og stefnu þurfa líka að fylgja aðgerðir. Því er afar mikilvægt að verið sé að leggja fram aðgerðaáætlun sem á að ráðast í og er þegar hafist handa við að ráðast í. Eitt af því er einmitt mælaborðið sem á að mæla líðan og velferð eldra fólks og þar getur m.a. hugsanlega komið í ljós sú þörf fyrir hagsmunagæsluaðila eldra fólks sem gæti ýtt frekar undir það að slíkt yrði sett á fót. Ég held að það sé afar mikilvægt í þessum viðkvæma málaflokki að við þingmenn tökum höndum saman, vinnum þvert á flokka, hættum að vera með ásakanir hingað og þangað því að það skilar engu. Vinnum þetta saman og þannig náum við árangri, ég er sannfærð um það.