Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:37]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta kemur fram í áliti 1. minni hluta:

„Frumvarpið byggist efnislega á tillögum átakshóps sem skipaður var um stöðu dreifikerfis raforku í kjölfar aftakaveðurs í desember 2019 og ber þess skýr merki að vera unnið með hraði sem viðbragð við afmörkuðum atburðum.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann skilgreinir afmarkaða atburði í þessu tilliti. Við þurfum ekki að fara lengra aftur heldur en í september á síðastliðnu ári þegar tvö aftakaveður gengu yfir Norðurland þar sem einmitt gamla Kröflulína 1 var að brotna mjög víða. Það hefði orðið alvarlegt rafmagnsleysi á Norðurlandi ef ekki hefðu verið komnar nýju línurnar, Hólasandslína 1, sem reyndar kom bara nokkrum vikum áður, og Kröflulína 3, sem tengist síðan Kröflu í Fljótsdalsstöð. Mér finnst nú óþarfi að tala um þetta sem einhverja einstaka viðburði vegna þess að þetta hefur verið að gerast. Það sem við upplifðum í þessu slæma veðri 2019, það er rétt að það sem gerðist þar í fyrsta skipti var að flutningskerfi raforku, byggðalínuhringurinn og svæðisbundið kerfi, var að laskast verulega og sjálfur byggðalínuhringurinn, sem hefur nánast verið óþekkt fram að þessu, hann fór mjög illa í því aftakaveðri. Síðan þurftum við að bíða í nokkur ár og þá fengum við aðra áraun, örfáum árum síðar, í september í fyrra, í þessu slæma veðri sem við upplifðum þá. Ég held að það þýði ekki að tala um þetta sem einstaka viðburði sem við erum að fást við hér, sem er þetta slæma veður, því að við erum að byggja þetta mál m.a. á því sem kom frá starfshópnum og þetta er heildstætt mál sem varðar í raun algjöra grunninnviði. Þetta er það mikilvægasta af öllu í nútímasamfélagi, þ.e. að hafa fullkomið og öflugt áfallaþolið kerfi sem dreifir raforku með sem allra öflugustum og tryggustum hætti.