Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski ekki miklu við þetta að bæta, en auðvitað er það alveg rétt sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson var að benda hér á, að í stríði eins og því sem nú geisar eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir meira en ári síðan, í stríði 20. aldar og 21. aldar snýst allt um að eyðileggja innviði. Það eru hins vegar stríðsglæpir að eyðileggja innviði samkvæmt Genfarsáttmálanum og alveg ljóst að það er ekki þannig sem heyja á stríð, ef þannig er til orða tekið. En það er auðvitað vegna þess að árásaraðilinn veit að þannig grefur hann undan samfélaginu með mjög dramatískum hætti; þeir fara í vatnsveiturnar, rafmagnið, brýrnar og alla þessa innviði sem halda einu samfélagi saman. En nú erum við kannski komin svolítið langt frá því frumvarpi sem hér er til umræðu. En ég ítreka bara þakkir til hv. þingmanns og líka þá skoðun mína að við þurfum að taka dýpri og meiri umræðu um þessi mikilvægu mál hér á vettvangi Alþingis.