Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

orðspor Íslands vegna hvalveiða.

[15:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Þannig að ég sé alveg skýr hvað varðar mína afstöðu til áframhaldandi veiða þá hef ég hingað til verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn þá að það sé að sjálfsögðu skýr réttur hverrar þjóðar að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Það snýst bæði um sjálfbærar veiðar en líka ábyrgan hátt. Í þessari skýrslu koma fram athugasemdir um atriði sem betur mega fara og þar af leiðandi þurfa þessar veiðar, eins og öll önnur auðlindanýting, að sjálfsögðu að vera ábyrgar og sjálfbærar. Í því felst að tryggja verður sjónarmið um dýravelferð við alla hagnýtingu dýra, hvort sem er við búfjárhald eða veiðar. Ráðherra sem fer með málaflokkinn hefur verið skýr um þær lagaheimildir sem hún hefur. Við erum bara einfaldlega með leyfi í gildi þannig að hér, talandi um frelsi, þarf auðvitað að huga að atvinnufrelsi og öðrum þáttum. Ég vil bara nefna það í lokin að það er ekki hægt að halda öðru fram en að ég sé mikill talsmaður aukins frelsis í bæði lyfjasölu og einkarekstri í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) og væri til í frekari umræðu við hv. þingmann um það hvenær sem er.