Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

húsnæði fatlaðs fólks.

[15:18]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við settum í lög fyrir síðustu áramót að fjölga NPA-samningum og tryggðum fjármagn til að ráðast í þær aðgerðir. Þetta er gríðarleg fjölgun á samningum sem þarna koma til, þetta eru 55 samningar ef ég man þetta rétt. Það þýðir að það eru færri sem eru að bíða eftir þeim samningum, held ég að hv. þingmaður geti verið sammála mér um. Það er því ekki eins og fólk sé að bíða eftir þjónustu vegna þess að ríki og sveitarfélög hafi ekki getað komið sér saman um kostnaðarskiptinguna. Fólk er að fá þjónustu, hvort sem það er í gegnum NPA-samninga eða annars konar þjónustu sem sveitarfélögin veita fötluðu fólki. En það eru stórar áskoranir í þessum málaflokki. Hluti af þeim snýr að húsnæðisuppbyggingu og það er verkefni sem við þurfum að gera gangskör í, og ég er alveg sammála því að auðvitað er það samstarfsverkefni.