Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:34]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Inga Sæland nefndi hér áðan. Hér er um góðar aðgerðir fyrir eldra fólk að ræða en þarna vantar að það sé gerð aðgerðaáætlun um þingsályktun sem var samþykkt hér á þinginu og var hluti af þinglokasamningum. Það hræðir mig ef við erum að taka þingsályktanir og samninga og hreinlega ekki horfa á það þegar við erum að vinna okkar vinnu. Við verðum að standa við það sem við segjum hér á þingi. Það á ekki bara við að hlutirnir fari hér í atkvæðagreiðslu, svo gleymum við þeim, heldur að því sé framfylgt í stefnu og aðgerðum í framhaldinu.