Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:36]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé stórhættulegt fordæmi að verða til í þessum sal og við skulum ekki láta það henda okkur að við treystum ekki því sem þingheimur sammælist um og samþykkir einróma. Ég hef ekki almennt reynt ráðherra Íslands að því að ganga á bak orða sinna eða víkja sér frá því sem samþykkt hefur verið í þessum sal eða fyrirheit hafa verið gefin um. Ég óska engum þess í slíkum embættum að láta minnast sín fyrir það að sneiða hjá því sem skýrlega hefur verið samþykkt og ákveðið af þingheimi. Það er gjaldfelling, það er niðurlæging gagnvart þeim flokki sem nær þeim árangri og fagnar því með öllum sínum skjólstæðingum að það skuli bara ekkert gert með það og því fleygt út um gluggann en settir tveir símsvarar í staðinn, fyrir þá sem á annað borð geta náð sambandi við þá. Ég skora á ráðherra sem fer með þessi mál að vera maður orða sinna og þeirra fyrirheita sem hér hafa verið tekin og gefin (Forseti hringir.) um þann hagsmunafulltrúa aldraðra (Forseti hringir.) sem 56 manna þingmannahópur var sammála árið 2021 um (Forseti hringir.) að skyldi ganga eftir.