Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:42]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er gott mál. Viðreisn mun styðja þetta mál. Ég fékk hins vegar skráð í nefndarálit að ég væri samþykkur álitinu með fyrirvara um að fjármálaáætlun tryggi ekki fjármögnun aðgerðaáætlunarinnar og áætlunin taki ekki á þeim vanda sem biðlistar á hjúkrunarheimili staðfesta að sé til staðar. Ég verð bara að vekja athygli á þessari skoðun minni og það kom fram í umræðunni í gær að inni á Landspítalanum lægju 66 sjúklingar sem ættu heima á hjúkrunarheimili. Það er bara á Landspítala en síðan eru aðrar sjúkrastofnanir sem geyma veikt fólk sem ætti líka heima á hjúkrunarheimilum. Ég held að við leysum ekki vanda þessara hópa bara með því að fara í einhverjar hókus pókus aðgerðir um nýjar lausnir í búsetuúrræðum fyrir eldra fólk. Við þurfum að sinna þessum hópi fyrst og fremst.