Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:50]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætlaði heldur ekki að koma upp í ræðu í þessu máli. Hins vegar verð ég að játa að ég er ein af þeim sem orð hæstv. ráðherra stuðuðu dálítið rétt áðan. Það sem stuðar mig við þessi orð er annars vegar það sem í þeim fólst, að við værum að tala um storm í vatnsglasi þegar við erum að tala um að það sé ekki verið að fylgja ályktunum Alþingis. Það er mikil vanvirðing við þetta þing. Það sem stuðar mig hins vegar líka er að þetta er það sem við erum alltaf að benda á, sem er vandamálið í því hvernig þessi ríkisstjórn vinnur. Hún lítur á Alþingi sem einhvers konar afgreiðslubatterí fyrir það sem ríkisstjórnin ákveður, eins og það sé í rauninni ríkisstjórnin sem styður þingið eða notar þingið en ekki ríkisstjórnin sem starfar í umboði Alþingis.

Mig langaði bara að biðja hæstv. ráðherra um að hugsa þetta aðeins, hvernig þau tala, hvernig þau hugsa, varðandi það til hvers við erum með löggjafarþing hér á þessu landi. Það er ekki þannig að það sé þingsins að afgreiða það sem ríkisstjórninni dettur í hug. Það er akkúrat öfugt. Það er ríkisstjórnin sem á að framkvæma það sem Alþingi ákveður.