Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:51]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði í sjálfu sér ekkert endilega að koma hérna upp en mig langar að taka undir með þeim sem hafa tekið til máls hérna um þennan hagsmunafulltrúa aldraðra. Með fullri virðingu fyrir því sem nú er verið að leggja fyrir atkvæði þá fullnægir þetta ekki því sem hagsmunafulltrúi aldraðra hefði gert. Þar fyrir utan finnst mér þetta snúast um traust. Það er ekkert að marka það ef stjórnarandstaðan fær einhver mál í gegn og ef þau eru samþykkt á Alþingi. Það finnst mér vera málið hérna. Ég veit ekki betur en það fari að nálgast þinglok og alls konar samningaviðræður fari í gang, miðað við þá litlu reynslu sem ég hef. Er þá ekkert að marka þær? Er ekki hægt að treysta þeim? Það er það sem mér finnst mjög alvarlegt við þetta. Mér finnst fordæmið sem þetta skapar vera virkilega alvarlegt. Þetta var samþykkt á Alþingi og það er framkvæmdarvaldsins, ráðherra, (Forseti hringir.) að fara að vilja Alþingis.