Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 105. fundur,  10. maí 2023.

dómstólar.

822. mál
[17:01]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég er með á þessu nefndaráliti ásamt hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur og tek undir þessa breytingartillögu.

Hér er lagt til að dómurum í Landsrétti verði fjölgað um tvo til viðbótar við þá tillögu sem er í þessu frumvarpi, til a.m.k. tveggja ára og með sólarlagsákvæði þar sem það er rétta leiðin til þess að tryggja sjálfstæði dómara. Ástæðan fyrir þessu er sú að það hefur myndast gríðarlega mikill málahali.

Hvers vegna hefur myndast málahali? Það er ekki bara vegna þess að það er almennt svo mikið að gera hjá Landsrétti. Það er vegna þess að hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skipaði með ólöglegum hætti í dóminn.

Það er ástæðan fyrir því að staðan í Landsrétti er sú sem hún er nú — ástæðan fyrir því að fólk þarf að bíða árum saman eftir réttlætinu og öðru. Við verðum að tryggja að fólk fái úrlausn mála sinna. Það gildir bæði um sækjendur og verjendur í öllum málum. (Forseti hringir.) Það eru gríðarlegir hagsmunir þarna undir.

Ég vil að það sé á hreinu að það er ekki fyrir tilviljun sem við stöndum frammi fyrir þessum vanda. Það er vegna þeirra lögbrota sem urðu hér í umboði Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum.

Ég segi já.