Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

blóðmerahald.

[15:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sendi stjórnvöldum fyrir skömmu ábendingu þess efnis að íslensk stjórnvöld hafi ekki uppfyllt kröfur Evróputilskipunar um notkun dýra í vísindaskyni. Hæstv. matvælaráðherra lét eftirfarandi ummæli falla í fréttum RÚV, með leyfi forseta:

„Hvað þetta varðar þá snýst þetta í raun um það undir hvers konar starfsemi þessi tilskipun fellur; hvort þetta sé starfsemi sem sé í vísindaskyni sem íslenska ríkið hefur ekki talið vera, heldur að þetta væri í raun atvinnustarfsemi. Þar er ákveðinn ágreiningur á skilgreiningu á þessari starfsemi.“

Í nýju reglugerðinni um blóðmerahald, nr. 900/2022, er blóðtakan starfsleyfisskyld með vísan til 20. gr. laga um velferð dýra. Þessa reglugerð setti hæstv. matvælaráðherra sjálf síðastliðið sumar. Lagagreinin sem reglugerðin vísar í fjallar einmitt um notkun dýra í vísindaskyni:

„Óheimilt er að nota lifandi dýr við kennslu, tilraunir, rannsóknir, framleiðslu eða prófun efna eða lyfja og við sjúkdómsgreiningu […] ef slíkri notkun fylgir álag eða þjáning fyrir dýrin.“

Samt segir matvælaráðherra í fréttum að þessi starfsemi heyri ekki undir reglugerð EES um notkun dýra í vísindaskyni. Hvað á það að þýða að setja reglugerð um blóðmerahald, þar sem blóðtakan er starfsleyfisskyld með vísan til þess að þetta sé notkun dýra í vísindaskyni, en segja síðan við fjölmiðla að þetta sé ekki í vísindaskyni? ESA hefur gefið það út að ef nota á dýr í vísindaskyni þá verði fyrst að framkvæma mat á því hvort hægt verði að ná fram sama árangri og að er stefnt án þess að nota dýr og valda þeim þjáningu. Nú liggur fyrir að fjöldi lyfja er þegar á markaði sem gegna sama tilgangi og lyf unnin úr PMSG. Það þarf ekki að taka blóð úr fylfullum hryssum til að framleiða lyf sem ná fram sama árangri og lyf sem framleidd eru úr PMSG og því er borðleggjandi að frekari blóðtaka úr fylfullum merum er óheimil. Skiptir máli, hæstv. matvælaráðherra, hvaða merkimiða við hengjum á dýraníð í réttlætingarskyni?