Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

safnalög o.fl.

741. mál
[16:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að koma upp í ræðu í þessu máli en tel það algerlega nauðsynlegt núna. Mér þykir miður að ekki hafi gefist tími í hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að ræða þetta mál. Það hefði farið betur á því. Ég er nefndarmaður þar og mótmælti þegar málið var tekið út úr nefndinni. Enginn úr stjórnarandstöðu er á málinu af því að málið fékk ekki umfjöllun.

Ég vil taka það fram að oft er betra að umræða, eins og sú sem á sér stað hér, eigi sér stað í nefnd. Ég held að hér sé misskilningur á ferð. Ég held að jafnvel framsögumaður nefndarálitsins — ég ætla ekki að gera henni neitt upp — og meiri hlutinn hafi ekki klárað þessa hugsun, nema það hafi átt sér stað á einhverjum öðrum fundi en í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Er það miður vegna þess að við reynum að hafa störf á Alþingi þannig að við vinnum málin vel í nefndum, öll saman. Það skiptir máli að við stöndum saman að þeim þingmálum sem við getum verið sammála um.

Í þessu tilviki er í frumvarpinu svohljóðandi ákvæði, með leyfi forseta:

„Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Endurnýja má skipun forstöðumanns einu sinni til næstu fimm ára.“

Þetta er ekki óskýrt. Það er heldur ekki óskýrt sem stendur í 4. gr. frumvarpsins:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta er ekki óskýrt. Meiri hlutinn tekur hins vegar ákvörðun um að fara gegn þessu.

Í frumvarpinu er alveg skýrt tekið fram tilefni og markmið þessarar lagasetningar. Í frumvarpinu er talað um að markmið lagasetningarinnar sé tvíþætt. Annars vegar að samræma skipunartíma forstöðumanna höfuðsafnanna þriggja og hins vegar að formgera árlegt samráð safnafólks með safnaráði og ráðherra. Hér er sem sagt kippt úr sambandi fyrra markmiði lagasetningarinnar, sem var að samræma skipunartíma forstöðumanna höfuðsafnanna þriggja. Mér finnst það sérstakt. Eins og hv. þingmaður sagði er verið að taka úr sambandi þetta litla ákvæði, ef marka má nefndarálitið: „Endurnýja má skipun forstöðumanns einu sinni til næstu fimm ára.“

Þetta á ekki að gilda um þá sem eru þar núna. Maður veltir fyrir sér hvort sá sem er þar núna geti þá verið þar í 20 ár. Það skýtur skökku við af því að þá erum við ekki að samræma reglurnar. Þá er það ekki rétt að alltaf sé auglýst að fimm árum liðnum. Við höfum nýleg dæmi um að það hafi ekki gerst. Ef ekki er auglýst endurnýjast skipunartíminn sjálfkrafa. Dæmi eru um það. Ráðherra skal hins vegar tilkynna þeim sem situr í embætti með sex mánaða fyrirvara ef ráðherra hyggst auglýsa starfið. Ef ráðherra hyggst auglýsa starfið skal ráðherra tilkynna það þeim sem situr í stólnum með sex mánaða fyrirvara, annars endurnýjast sjálfkrafa. Þannig hefur það verið.

Þess vegna er nú tekinn hver lagabálkurinn á fætur öðrum og hver stofnunin á fætur annarri sem telst mikilvæg í þessu samhengi. Ég held að við getum öll, eða flest, verið sammála um að menningarstofnanir séu það, líka þær stofnanir sem fjalla um gríðarlega viðkvæman persónurétt. Þetta var t.d. sett inn þegar Barnaverndarstofa varð að Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Sagt var að í þessum viðkvæmu embættum ætti fólk ekki að sitja of lengi.

Í lista- og menningarlífi skiptir þetta máli vegna þess að um er að ræða afskaplega fáar stöður. Það er vont ef sama manneskja situr allt of lengi á sama stað af því að þá getur þetta orðið mjög persónulegt. Til getur orðið vinavæðing þeirrar stofnunar af því að þetta eru oft svo mikil smekksatriði. Þá litast sú menningarstofnun of mikið af persónulegum smekk forstöðumannsins. Ef það gerist um áratugaskeið yrði það mjög óheppilegt. Það yrði til vansa fyrir lista- og menningarlíf á Íslandi að hafa það þannig.

Ég vil hvetja hv. þingmenn í meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar að endurskoða breytingartillögu sína. Ég held að þetta sé misskilningur. Ég tel að það eigi að láta þetta gilda frá því að frumvarpið er samþykkt. Miklu betur færi á því.

Fyrir nefndina kom það sjónarmið að það myndi fæla fólk frá því að sækja um svona fínar stöður ef það gæti einungis setið í þeim í tíu ár. Ég verð að vera ósammála þessu. Þetta eru mjög sjaldgæf embætti. Þessar stöður — þetta eru ekki embætti — eru fáar á Íslandi. Þær skipta miklu máli. Það er betra að fólk upplifi það ekki þannig að þegar einhver hafi verið settur í þessa stöðu eigi það ekki séns á framgangi á sínu sviði af því að það viti að viðkomandi muni sitja þar í 20 eða 30 ár.

Það er gamli tíminn. Nú á dögum viljum við meiri hreyfanleika. Gamli tíminn var þannig að þú fékkst gullúr þegar þú hafðir starfað á sama stað í 40–50 ár. Við erum ekki þar í dag. Fólk starfar einhvers staðar í einhvern tíma og svo fer það og nær sér jafnvel í meiri menntun eftir það. Það væri betra fyrir söfn á Íslandi ef við færum ekki þessa leið sem meiri hlutinn leggur til. Ég var því fylgjandi því frumvarpi sem var lagt fram af hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra.