Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

kosningalög.

497. mál
[15:27]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Mér finnst það gerast æ oftar að ég heyri gagnrýni um að ráðafólk sýni ákveðið dugleysi þegar kemur að málefnum framtíðarinnar. Þetta er rauður þráður í kröfum þeirra sem vilja sjá fastar kveðið að orði og fastar gripið til aðgerða gegn loftslagsbreytingum, þetta er líka nefnt í tengslum við viðbrögð við gervigreind. Dæmin eru mörg. Þetta fær okkur vonandi til að hugsa hvað það er við þingmenn og ráðherra sem gæti farið betur til að tala betur inn í þennan hóp sem gagnrýni stafar frá, hóp ungs fólks. Hér mæli ég fyrir frumvarpi sem ég held að geti orðið liður í því, frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum, um lækkun kosningaaldurs, sem ég legg fram ásamt þingmönnum úr Pírötum, Viðreisn og Samfylkingu, sem snýr að því að lækka kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum úr 18 árum í 16 ár. Sambærileg frumvörp hafa verið lögð fram nokkrum sinnum og ein útfærslan var að breyta stjórnarskrá þannig að þetta næði yfir allar kosningar hér á landi. En hér er afmörkuð útfærsla sem snýr bara að sveitarstjórnarkosningum lögð fram, m.a. vegna þess að það er bara svo einfalt. Það er einfalt að breyta þeim forsendum með einfaldri lagabreytingu, stjórnarskrá kallar á breytingar á tveimur þingum með kosningum á milli, og líka vegna þess að málefni sveitarfélaganna er sú opinbera þjónusta sem kannski stendur ungu fólki einna næst. Þetta eru skólarnir, frístundirnar, samgöngurnar, atriði sem þessi hópur hefur margt fram að færa varðandi.

Þessi gagnrýni á dugleysi ráðamanna þegar kemur að málefnum framtíðarinnar situr dálítið í mér eftir gærdaginn vegna tveggja funda sem ég sat. Annar fundurinn var málþing um stöðu og framtíð lýðræðisins sem haldið var í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem stendur nú yfir og þar kom fram í umræðum gagnrýni á litla aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku. Ráðherra sem sat fyrir svörum, hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, sagði, og ég ætla að leyfa mér að umorða það pínu, að ungt fólk þyrfti bara að vera duglegra að láta í sér heyra. Það er ekki vandinn. Ungt fólk er bara ágætlega duglegt við að láta í sér heyra. Það er ráðafólkið sem er lélegra í að hlusta. Hæstv. ráðherra lét þessi orð falla í Veröld á háskólasvæðinu og þá er ágætt að benda á að stúdentar hafa verið duglegir að láta í sér heyra á síðustu árum varðandi t.d. breytingar á námslánakerfinu þar sem ekki var hlustað á þeirra vel rökstuddu sjónarmið um hvernig ætti að sníða sanngjarnara framfærslukerfi fyrir stúdenta. Sömu stúdentar sendu inn nánast samhljóða umsagnir aftur og aftur í gegnum Covid-faraldurinn og bentu á hvernig aðgerðir stjórnvalda kæmu ekki til móts við þarfir stúdenta. Kannski nærtækast að nefna þá staðreynd að þegar enga sumarvinnu var að fá vegna heimsfaraldurs þá fór að bíta dálítið fast við stúdenta að þau höfðu ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Stúdentaráð lét í sér heyra varðandi þetta og ráðherrar ákváðu að hlusta ekki. Þá er bara stórvirki sem hefur verið unnið á síðustu árum varðandi það að varpa skýrara ljósi á það ofbeldi sem viðgengst í samfélaginu. Ég nefni sérstaklega stafrænt kynferðisofbeldi sem ungt fólk var í framvarðasveitinni að koma á dagskrá umræðunnar í samfélaginu. En það má líka nefna hatursorðræðuna og ja, bara hatrið sem mætir hinsegin fólki og sérstaklega hinsegin ungmennum á síðustu árum. Þar hefur ungt fólk aldeilis verið duglegt að láta í sér heyra en viðbrögð ráðamanna verið of hæg. Það var ungt fólk sem kom geðheilbrigðismálum á dagskrá svo um munaði. Hvar er niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu sem var samþykkt hér í þingsal, fyrir þremur árum að verða? Af hverju er ekki byrjað að niðurgreiða sálfræðiþjónustu ef stjórnvöld hlusta á ungt fólk ef það er duglegt að láta í sér heyra? Ungt fólk hefur líka verið í forystu þeirra sem berjast fyrir réttindum fólks á flótta. Þar mætti t.d. nefna regnhlífarsamtökin Fellum frumvarpið, sem komu fram hér í vetur. Þar voru saman komin öll helstu ungmennasamtök landsins, ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna, ungliðadeildir Amnesty International og UN Women og fleiri sem voru að berjast fyrir því að mannúð yrði höfð að leiðarljósi í málefnum fólks á flótta. Svo eru það blessuð loftslagsmálin, forseti, sem ungt fólk hefur sett á dagskrá á þann hátt sem ekki hafði tekist áður. En við erum föst í þeirri stöðu núna að stjórnvöld tala mikið um eigið ágæti en aðgerðirnar endurspegla það ekki. Hér eftir helgi munum við væntanlega taka fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til síðari umræðu. Þar er ekki að sjá neinn aukinn metnað í loftslagsmálum enn eitt árið. Þannig að þessi staðhæfing ráðherrans um að ungt fólk þurfi bara að vera duglegra að láta í sér heyra stenst ekki. Það sem vantar er að eldra fólkið sé duglegra að hlusta. Það þurfum við að vera vegna þess hvernig þingið er samsett.

Eftir síðustu kosningar var meðalaldur þingmanna 50 ár. Það voru þrír þingmenn í salnum undir þrítugu, bara þrjú voru undir þrítugu á kjördag. Þingið endurspeglar ekki samfélagið í aldurssamsetningu. Þingið endurspeglar ekki samsetningu þjóðarinnar, ekki einu sinni þó að við skoðum bara þjóðina á kosningaaldri sem er kannski eðlilegi samanburðurinn. Þess vegna þurfum við að vera duglegri að hlusta á sjónarmið þeirra sem eru ekki í salnum. Þar hallar sérstaklega ungt fólk. Þetta frumvarp sem við fjöllum um hér í dag snýst um að gefa unga fólkinu verkfæri til þess að ganga á eftir því að á það sé hlustað vegna þess að ef það er eitthvað sem stjórnmálafólk skilur þá eru það kosningar, niðurstöður kosninga. Ef það er einhver tímapunktur þar sem stjórnmálafólk er tilbúið til að hlusta þá er það í aðdraganda kosninga þegar það stendur andspænis kjósendum sem geta dæmt aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnmálafólks í kjörklefanum.

Með því að gera eins og lagt er til í þessu frumvarpi, að taka tvo árganga fólks sem nýtur enn verndar barnasáttmálans og rétta því aðgöngumiðann að kjörklefanum, þá getur það refsað stjórnmálafólki í kjörklefanum ef það stendur sig ekki. Þetta skiptir máli, ekki bara til að við fáum fleiri hugmyndir hingað inn í sal, ekki bara til þess að við byggjum upp betra samfélag til lengri framtíðar heldur snýst þetta um trú fólks og næstu kynslóða á lýðræðið, á þetta kerfi sem við þurfum að standa vörð um. Allar kannanir á kosningahegðun vísa á einn veg. Það að taka þátt í kosningum er lærð hegðun og það að upplifa eftir kosningar að þín sjónarmið hafi ekki notið sannmælis — fólk dregur lexíu af því, það hefur áhrif á áhuga þess á að taka þátt í næstu kosningum. Ef því líður eins og það hafi verið hlunnfarið, eins og sjónarmið þess hafi ekki notið sannmælis, þá eru líkurnar á því að það taki þátt í næstu kosningum minni. Trúin á lýðræðinu dvínar.

Þá langar mig að nefna hinn fundinn sem ég sat í gær sem var í Norræna húsinu og fjallaði um mikilvægi þess að gera vistmorð að broti á alþjóðalögum, barátta sem er í gangi víða um lönd. Í pallborði var ungur aktífisti frá Svíþjóð, Tova Lindqvist, sem kristallaði þetta eiginlega bara með því að segja að ungdómurinn væri að missa trúna. Ungt fólk væri að missa trúna á lýðræðið vegna þess að það upplifi ekki að á það sé hlustað, vegna þess að það upplifi ekki að þau brýnu mál sem ungt fólk er að setja á dagskrá rati hingað inn í salinn. Þau rati ekki inn í kjarnann á stjórnmálafólkinu sem á að taka mark á þessu.

Við leysum þennan vanda, þennan lýðræðishalla sem mig langar að kalla það, þetta hlustunarleysi, ekki með einhverjum skyndilausnum en ein af lausnunum, eitt af verkfærunum sem við getum útbúið, er víðtækari hópur kjósenda, stærri hópur sem getur haft áhrif hér innan veggja.

Svo ég kjarni það sem ég hef verið að segja, frú forseti, því annars er nú flest hérna í greinargerð frumvarpsins: Ungt fólk þarf bara að vera duglegra að láta í sér heyra. Þegar ráðherra í íslenskri ríkisstjórn segir þetta þá verðum við að svara með því að benda á að ungt fólk er bara hreint ágætlega duglegt við að láta í sér heyra. Vandinn er að ráðherrar og annað fólk í valdastöðum hlustar ekki. Þetta veldur því að ungt fólk missir trúna á lýðræðið, missir trúna á það að stjórnmálin séu líkleg til að takast á við þær áskoranir sem skipta mestu máli til framtíðar. Samfélagið verður fátækara því róttækustu, frumlegustu, mikilvægustu og fallegustu hugmyndirnar spretta frá þeim sem eru nógu ung til að geta auðveldlega séð fyrir sér heiminn eftir 50 ár. Þess vegna mæli ég fyrir þessu frumvarpi um að lækka kosningaaldur í 16 ár vegna þess að fleiri og yngri kjósendur myndu neyða valdafólk til að hlusta betur eftir sjónarmiðum ungs fólks, hugsa heildstætt til framtíðar og þannig að gera samfélagið betra.