Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

kosningalög.

497. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það kemur mér nú lítið á óvart að hv. þingmaður sé efnislega sammála þessu máli og hefði náttúrlega verið fínt að við steyptum málunum bara saman en stundum fara skilaboð á mis þannig að við erum með tvö góð mál um sama markmið á þingi. Nú gengur þetta til nefndar og vonandi getum við bara lagt sameiginlegan kraft á bak við að klára það.

Varðandi það að koma sjónarmiðum ungs fólks betur að þá langar mig líka aðeins að nefna, sem við höfum rætt einhvern tímann í fyrri útfærslum þessa máls, að það að lækka kosningaaldur að einhverju leyti eins og við erum að leggja til hér, jafnvel enn neðar eins og sumt fólk hefur mælt fyrir, er í sjálfu sér bara eðlilegt framhald af því að við séum að taka barnasáttmálann alvarlega. Barnasáttmálinn setur þær skyldur á herðar okkar sem tökum ákvarðanir að við tökum tillit til sjónarmiða barna í málefnum sem þau varða og að það tillit sé í rauninni stigvaxandi eftir því sem börnin hafa þroska til. Þess vegna er í rauninni alveg eðlilegt að elstu börnin, þessir síðustu árgangar sem eru undir verndarvæng barnasáttmálans, fái bara sama vald og fullorðið fólk þegar kemur að vali á kjörnum fulltrúum. Það er eitthvað sem stjórnmálahreyfingar hafa raunar flestar tekið inn í sitt innra starf. Aldursmörk fyrir þátttöku í, að ég held, allflestum stjórnmálaflokkum á Íslandi eru ýmist 15 eða 16 ár vegna þess að þetta eru árgangar sem hafa svo margt að segja (Forseti hringir.) og margt að gefa inn í það hvernig samfélagið þróast.