Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 109. fundur,  16. maí 2023.

kosningalög.

497. mál
[15:51]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég ætla að segja frá mínum efasemdum um þessa tillögu þó svo að ég efist alls ekki um að hún sé lögð fram af góðum hug og geti haft ýmsar jákvæðar hliðar, það held ég að sé alveg ljóst. Hún geti kannski fengið unga fólkið til þess að horfa á stjórn landsins og taka afstöðu fyrr af meiri ábyrgð. En þetta felur einnig í sér ýmsa ókosti og ég held að menn verði líka að horfa til þess að það þarf að samræma hvenær fólki er treyst til ákveðinna hluta. Fólki er ekki treyst til að kaupa áfengi 16 ára, fólki er ekki treyst til þess að keyra bíla 16 ára. Ég held að þessi aldur, 18 ár, sé ekki stóra málið til að eiga við, alla vega sé ég ekki að það leysi þau vandamál sem uppi eru í samfélaginu hvað varðar ungt fólk. Það eru ýmsar tillögur, gott ef Píratar eru ekki með tillögu um að hækka samræðisaldurinn í 18 ár. Svo vilja menn lækka kosningaaldurinn og svo er það áfengiskaupaaldurinn. Það hefur ákveðna kosti að gefa krökkum frí, alla vega fram að 18 ára aldri, frá því að verða fyrir þungum áróðri. Þau fá að móta sína afstöðu til lífsins 16, 17 ára án þess að vera útsett fyrir áróðri okkar og stjórnmálaaflanna í landinu og einnig að vera ekki gerð að einhverju gluggaskrauti á framboðslistum flokkanna. Það er líka þáttur sem verður að horfa á. Með hliðsjón af því þá tel ég að það sé ekki rétt að breyta þessu þrátt fyrir að ég sé sannfærður um að þetta mál sé lagt fram af góðum hug og þessar breytingar hafi eflaust ýmsar jákvæðar hliðar.