153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

frumvarp um heimildir ríkissáttasemjara.

[13:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var víða komið við og málið síðan stytt niður í einfalda spurningu. Það liggur fyrir að málið hafði verið afgreitt í ríkisstjórn og í þingflokki Sjálfstæðismanna þannig að við studdum það að málið kæmi strax fram. En á endanum, eins og gefur að skilja, verður það að vera mat viðkomandi ráðherra hvort hann vill mæla fyrir málinu og hann mat aðstæður með þeim hætti að það yrði ekki gert núna. En ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að þessar umbætur eigi sér stað á ramma vinnumarkaðslöggjafarinnar.

Hér hefur líka verið vísað til þess að ríkisstjórnin hafi lifað lengi og menn kalli eftir einhvers konar uppgjöri, heyri ég, á því hvað hún hefur verið að gera. Það er nú í mörg horn að líta. Við erum í miðri stafvæðingu opinbera kerfisins alls og Stafrænt Ísland er til vitnis um það. Við höfum verið á undanförnum árum í sérstöku uppbyggingarátaki í innviðum. Ríkisstjórnin hefur rekið efnahagsstefnu og eins og með allar efnahagsstefnur hafa menn verið að leita að nokkrum meginmarkmiðum. Það er markmið með efnahagsstefnunni t.d. að tryggja fulla atvinnu á Íslandi. Hvernig gengur það? Það hefur gengið mjög vel, hærra atvinnustig á Íslandi en hjá flestum öðrum þjóðum. Við höfum haft það sem markmið með þessari efnahagsstefnu, eins og allar góðar efnahagsstefnur eiga að gera, að þróa atvinnulífið. Það eru að verða gríðarlega miklar breytingar á íslensku atvinnulífi, sjáið það sem er að gerast í ferðaþjónustunni og síðan allar nýju greinarnar, hvort sem við horfum til tækniþróunar, hugbúnaðarþróunar á Íslandi, þess sem er að gerast í lyfjageiranum eða í fiskeldi, landhelgi o.s.frv.; nýir sprotar eru að verða til úti um allt land og m.a. á grundvelli rannsókna og þróunarstarfs og fjárfestingar í slíku.

Efnahagsleg velsæld er sjálfstætt markmið með efnahagsstefnu okkar. Hvernig gengur að auka efnahagslega velsæld þjóðarinnar? Það hefur sjaldan gengið betur (Forseti hringir.) — sjaldan gengið betur — sem mælist á flesta mælikvarða sem almennt eru viðurkenndir. En það er hins vegar áskorun í augnablikinu (Forseti hringir.) hvað stöðugleikann varðar og þar verðum við að safna kröftum (Forseti hringir.) og ná árangri í að lækka verðbólgu.