153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

undanþágur fyrir Ísland vegna losunarheimilda.

[13:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa fyrirspurn því að það er mikilvægt að fá tækifæri hér til að skýra þetta mál sem hefur nú verið tekið til umræðu í utanríkismálanefnd, var gert í gær. Við skulum byrja á að spyrja: Um hvað snúast hagsmunir Íslands? Jú, þeir snúast um það að brúa bilið þar til sú ákvörðun verður endanlega tekin að allt flug út úr EES-svæðinu falli undir ETS-kerfið. Það hefur verið markmiðið því að við höfum bent á að fram að því stöndum við ekki jafnfætis öðrum flugfélögum í Evrópu. Samkvæmt löggjöf ESB á að fella þetta flug undir ETS-kerfið að hluta eða í heild 1. janúar 2027. Um þetta snýst málið, ekki síst fyrir íslensku flugfélögin. Ef Evrópusambandið mun breyta þessum áformum sínum þá þarf að sjálfsögðu að vera hægt að bregðast við því. En sá sameiginlegi skilningur sem ég og Ursula von der Leyen kynntum hér á blaðamannafundi — og raunar tók ég þar fram að það mál ætti að sjálfsögðu eftir að ræðast bæði hér á Alþingi, í utanríkismálanefnd og á réttum stöðum — þá getur Ísland framlengt núverandi kerfi endurgjaldslausra losunarheimilda út árið 2026 þar til þessi kerfisbreyting verður innan Evrópu. Það er þá innbyggt endurskoðunarákvæði árið 2026 sem varðar veginn í viðræðum um næstu breytingar, t.d. ef eitthvað breytist í þessum áformum, fyrir utan að Ísland fær sömu sérlausn og Malta og Kýpur, sem eru auðvitað líka eyjar.

Það hefur alltaf legið fyrir af minni hálfu að við tökum undir þau sjónarmið sem Evrópusambandið hefur markað um það að við viljum draga úr losun frá flugi. Þetta mál hefur aldrei snúist um það að við eigum að vera algerlega undanþegin þeim markmiðum. Þetta mál snýst um að flug til og frá Íslandi búi ekki við skerta samkeppnisstöðu vegna landfræðilegrar legu. Um það snúast hagsmunir Íslands, (Forseti hringir.) ekki að við ætlum ekki að taka þátt í því verkefni að draga úr losun frá flugi, sem er auðvitað bráðnauðsynlegt mál.