Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[15:38]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með breiðri og þverpólitískri samstöðu stjórnvalda og hér í þinginu um stuðning við Úkraínu frá því innrás Rússa hófst í Úkraínu í febrúar í fyrra. Úkraínska þjóðin hefur enda átt hug okkar allan. Baráttuandinn, hugrekkið og þrekið sem hún hefur sýnt við ólýsanlegar aðstæður eru okkur, vinaþjóðum hennar, hvatning til þess að gefast heldur ekki upp; gefast ekki upp heldur styðja þétt við bakið á úkraínsku þjóðinni.

Með þessari tillögu sýnum við Íslendingar samstöðu í verki; við, sem búum enn þá í friðsælum hluta álfunnar á meðan vinaþjóð okkar berst fyrir friði í sínum hluta, berst fyrir okkar réttindum, fyrir okkar gildum. Ég þakka því hv. flutningsmönnum fyrir tillöguna um kaup á neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu og styð hana heils hugar.