Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[15:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég fagna innilega þessari tillögu og vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir málflutninginn og að gera grein fyrir þeirri aðstoð sem við Íslendingar höfum veitt Úkraínu eftir að Rússar réðust inn í landið. Þar held ég að við höfum staðið okkur alveg ágætlega og þessi tillaga er virkilega góð og mun nýtast mjög vel í þeim hörmungum sem geisa í Úkraínu. Það segir í þessari tillögu að mikill skortur sé á færanlegum sjúkrahúsum til að sinna særðum hermönnum. Þá segir einnig í tillögunni að stjórnvöld í Eistlandi hafi boðist til að taka að sér verkefnastjórn við samsetningu á slíku sjúkrahúsi sem Ísland hyggst nú færa Úkraínumönnum, sem er mikill sómi að.

Ég kannski velti því fyrir mér — vissulega kostar þetta töluverðan pening en er svo sannarlega þess virði — hvort það séu aðilar hér heima sem gætu tekið að sér þessa verkefnisstjórn og vonandi verður undirbúningurinn að því að kaupa þetta færanlega neyðarsjúkrahús góður, því að það skiptir verulegu máli. Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvaðan á að kaupa þetta sjúkrahús en t.d. eru Bandaríkjamenn mjög framarlega í framleiðslu á slíkum færanlegum sjúkrahúsum og sömuleiðis Tyrkir og ég vænti þess að þessir möguleikar verði allir skoðaðir ofan í kjölinn, hvar fæst mest fyrir peninginn og mestu gæðin, þetta skiptir allt saman verulegu máli, hverjir komi til með að sinna þeirri framkvæmd að velja þetta sjúkrahús og koma því á staðinn. Því vil ég hvetja þá sem vinna að því máli að kynna sér vel það sem er í boði í þessum efnum vegna þess að það er margt mjög fjölbreytilegt og þeir sem best til þekkja í þessum málum þurfa að koma að þessu með einhverjum hætti hvað varðar ráðgjöf og annað slíkt.

Síðan vil ég segja hér að þörfin er gríðarleg í Úkraínu. Ég hef farið tvisvar sinnum til Úkraínu eftir að stríðið hófst og ég fór fyrst fáeinum mánuðum eftir að stríðið hófst. Ég heimsótti þar hersjúkrahús og þar voru aðstæður afar bágbornar. Það var sjúkrahús með 32 rúm sem voru öll full af ungum mönnum um tvítugt sem höfðu misst útlimi. Átakanlegt var að sjá það og heimsækja þetta sjúkrahús. Á meðan ég var staddur á þessu sjúkrahúsi fóru loftvarnaflautur í gang og ég þurfti ásamt þeim sem voru með mér að fara niður í kjallara og við þurftum að dúsa þar í tæpan klukkutíma. Því hefur maður aðeins fengið tilfinninguna fyrir því hvernig er að vera í þessum aðstæðum.

Auk þess hef ég farið til borgarinnar Kharkív, sem Rússar hafa valdið gífurlegu tjóni á og margir létu lífið í þeim loftárásum. Þar verð ég að segja að Rússar eira engu í þessum sprengjuárásum sínum, það skipti engu máli hvort það var sjúkrahús eða kirkja. Við sáum t.d. strætóstoppistöð þar sem okkur var sagt að 12 ára drengur hefði beðið eftir strætó en hann varð fyrir eldflaug og dó. Rússarnir eru algerlega miskunnarlausir í þessu stríði og með ólíkindum hve mikil þrautseigja er meðal úkraínsku þjóðarinnar í þessari baráttu. Ég er mjög stoltur af því hvað Ísland hefur mikla samúð með Úkraínu og hefur sýnt það í verki að við styðjum þjóðina. Við höfum tekið á móti fjölmörgum flóttamönnum og gert það vel og við eigum að halda því áfram.

En ógnirnar eru til staðar og við sjáum ekki að þessu stríði sé að fara að ljúka. Við sjáum að Rússarnir eru komnir í samstarf við Kínverja, sem er mikið áhyggjuefni að mínu mati, og líkurnar á umfangsmiklum alþjóðlegum deilum held ég að fari bara vaxandi, því miður. Það er nú einu sinni þannig að við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk og þetta stríð getur hæglega farið úr böndunum. Ég átti gott samtal við sendiherra Póllands fyrir ekki svo löngu síðan þar sem hann sagði mér að þeir teldu að það væri raunveruleg hætta á því að þeir yrðu næstir í þessu árásarstríði Rússa. Þetta eru vissulega mjög óstöðugir og hættulegir tímar.

Ég segi það bara að lokum, frú forseti, að ég fagna enn og aftur þessari tillögu og vona að vel verði staðið að undirbúningi þess að kaupa þetta færanlega sjúkrahús. Það skiptir svo sannarlega máli og vonandi mun það komast á leiðarenda sem allra fyrst þannig að það nýtist þeim sem þurfa á því að halda.