Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.

1074. mál
[15:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar fyrst og fremst að þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir góða umræðu og þá samstöðu með Úkraínu sem birtist enn og aftur í þessum sal. Ég vil líka taka það fram, af því að málið gengur nú til hv. utanríkismálanefndar, að utanríkisráðuneytið er reiðubúið að mæta á fund nefndarinnar og svara þeim spurningum sem hér hefur verið varpað fram sem varða frekari útfærslu málsins. Þessi leið sem reifuð er í greinargerð með tillögunni var metin sú hagkvæmasta en það eru auðvitað aðrar leiðir til og það er líka hægt að flýta þessari framkvæmd, ef vilji stendur til þess, fyrir þá aukna fjármuni. En ég taldi rétt að þetta væri grundvallaruppleggið og nefndin gæti þá farið nánar yfir það með fulltrúum utanríkisráðuneytisins sem hafa að sjálfsögðu verið okkur innan handar við undirbúning tillögunnar.

Að öðru leyti langar mig að þakka fyrir umræðuna og ég veit, af því að tillögunni var dreift í aðdraganda leiðtogafundarins, að fregnir af henni bárust strax til úkraínskra stjórnvalda. Þeim finnst þetta skipta máli og þau eru auðvitað mjög meðvituð um það, eins og síðasti ræðumaður sagði, að Ísland er herlaus þjóð. Þess vegna orðuðu þau þetta einmitt við okkur. Það gleður mig mjög ef við getum orðið þeim að hjálp með þessum hætti sem mér finnst endurspegla bæði samstöðu, stuðning og að Íslendingar leggi það af mörkum sem við getum gert. Því ítreka ég þakkir mínar og vonast til þess að hv. utanríkismálanefnd geti tekið þetta mál hratt og örugglega fyrir.