Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 111. fundur,  24. maí 2023.

Störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Mér hlotnaðist sá heiður núna rétt fyrir hádegi að hitta gest Matthildar – samtaka um skaðaminnkun, sem voru að halda upp á eins árs afmæli sitt. Hann heitir Daan van der Gouwe og er sérfræðingur í efnagreiningum á vímuefnum. Í Hollandi hafa þeir tekið ákveðinn pól í hæðina þegar þeir eru að glíma við ótímabær dauðsföll og eru að lenda í því sem við horfumst í augu við nú, þar sem um 40 einstaklingar eru þegar dánir það sem af er ári vegna ópíóíða, að stórum hluta einstaklingar sem eru ekki komnir á þann stað að geta flokkast undir það að vera fíklar heldur eru að fikta og lenda á eitruðum efnum. Það eru til svo einfaldar lausnir til að koma í veg fyrir þessi ótímabæru dauðsföll, að maður er í rauninni með tárin í augunum yfir því að ríkisvaldið og stjórnvöld skuli ekki grípa það fegins hendi þegar lausnirnar liggja á borðinu. Þessi góði maður og sérfræðingur, Daan van der Gouwe, sem var að tala við okkur fyrir hádegi, segir t.d. að með einföldum strimlum eins og við notum t.d. til að mæla eggjahvítu í þvagi og hvaðeina annað, bara með því að stinga þeim t.d. í kókaín þá sést það strax á litabreytingu hvort búið er að menga vöruna með Fentanyl, sem er í raun orðin dauðablanda fyrir þann sem þess neytir. En er það í boði hér þótt þetta kosti nánast ekki neitt? Nei.

Einnig spurði ég þennan góða mann að því hvað Naloxone myndi hafa gert fyrir þessa einstaklinga sem nú eru dánir. Hann sagði að t.d. í Hollandi væri ekki einn einasti lögreglumaður sem ekki er með Naloxone í vasanum. Það er hvergi nokkurs staðar heilbrigðisfulltrúi sem ekki hefur aðgang að Naloxone (Forseti hringir.) og enginn fíkill sem ekki hefur aðgang að Naloxone vegna þess að Naloxone, þessi nefúði, dregur í raun úr eituráhrifum og bjargar í alvörunni mannslífum. (Forseti hringir.)

Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að taka það í fangið sem svo augljóslega er verið að gera vel í kringum okkur og koma í veg fyrir það að við teljum bara kennitölur sem eru að týna lífi hér, algerlega ótímabært.