153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

skerðing almannatrygginga og frestun launahækkana.

[13:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kom víða við í sinni fyrirspurn og byrjaði á að ræða stöðu lífeyrisþega sem hafa fengið ofgreitt og eru því beðnir um endurgreiðslu frá og með 1. september nk. Það eru um 49.000 einstaklingar sem eru í þeirri stöðu en u.þ.b. 12.000 sem eiga inneign og fá þar af leiðandi viðbótargreiðslu út frá því. Það eru töluvert fleiri lífeyrisþegar sem fengu ofgreitt árið 2022 en árin á undan. Ástæðan er, samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun, áhrif af hárri verðbólgu og vaxtastigi sem hefur haft talsverð áhrif á bæði lífeyrisgreiðslur og fjármagnstekjur.

Að sjálfsögðu hefur það verið viðvarandi verkefni Tryggingastofnunar ríkisins að leita leiða til þess að þetta misræmi myndist ekki í raun og veru á milli áætlunarinnar og þess sem síðan er gert upp. Það er t.d. unnið að betra upplýsingaflæði milli Tryggingastofnunar sem og lífeyrissjóða við skattyfirvöld. Það er auðvitað stóri vandinn. Meðan við erum með kerfi sem gerir ráð fyrir þessum skerðingum, sem við hv. þingmaður höfum svo sem rætt áður, er auðvitað mjög mikilvægt að við leitumst við að sem minnstur munur sé á milli áætlunar og þess sem greitt er út. En stóra verkefnið, og þar hygg ég að við séum sammála, er auðvitað að breyta kerfinu og við höfum svo sannarlega verið að draga úr skerðingum. Króna á móti krónu skerðingin er vissulega áfram skerðing, en það er ekki króna á móti krónu í sérstakri framfærsluuppbót heldur 65 aurar á móti krónu. Við drógum líka úr skerðingum á síðari stigum á því kjörtímabili sem leið hér síðast og fram undan er heildarendurskoðun á þessu kerfi. Eins og ég þreytist ekki á að segja hér í orðaskiptum mínum við hv. þingmenn þá ætti að vera sameiginlegt markmið okkar að það kerfi geti verið innleitt. (Forseti hringir.) Við erum búin að leggja mat á kostnað við það upp á 16 milljarða kr. á ársgrunni til að gera réttlátara kerfi með minni skerðingum, gagnsærra og fyrirsjáanlegra, þannig að fólk lendi til að mynda ekki í þessum vanda.