Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

útgjöld til heilbrigðismála.

499. mál
[15:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þau innlegg sem hafa komið í þessa umræðu sem hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir hóf hér. Já, það er rétt, það hefur áhrif á raunverulega alla innviði sem við byggjum upp hversu fá við erum í raun og veru og með ólíkindum hversu öflugt heilbrigðiskerfi við höfum náð að byggja upp. Það hefur líka mikil áhrif hversu dreift við búum, það er hárrétt sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom inn á og við þurfum að hafa það í huga.

Það eru fjölmargir aðrir mælikvarðar til og hér var verið að ræða velsældarmælikvarða fyrr í dag. Lífslíkur við fæðingu eru hér með því hæsta sem gerist í heiminum. Það er hvergi betra að vera hvað varðar bráðaviðbragð, til að mynda ef upp kemur heilablóðfall og það eru fjölmargir mælikvarðar sem vísa til þess hversu öflugt heilbrigðiskerfi við eigum. Er mikið álag á heilbrigðiskerfinu eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á? Já, það er mjög mikið álag á heilbrigðiskerfinu og álag á heilbrigðisstarfsfólki. Við erum líka að setja aukinn kraft í að byggja upp innviði, byggja loksins spítalann. Fyrir hverja er það? Það er fyrir fólkið í landinu og ekki síst starfsfólkið okkar og til að betrumbæta aðbúnaðinn.

Ég var nú í óundirbúnum fyrirspurnatíma hér áðan að ræða það sem fram undan er þegar aldurssamsetningin er að breytast jafn hratt og raun ber vitni og í ljósi þeirrar staðreyndar að einn af hverjum þremur þarf að kljást við krabbamein af ólíkum toga. Lífsstílstengdir sjúkdómar munu aukast. Þá er mikilvægt, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom inn á, að gera átak í lýðheilsumálum og stefnumótun í lýðheilsu.

Staðreyndin er hins vegar sú að framlög til heilbrigðismála hafa hækkað úr 266 milljörðum árið 2017 í 345 milljarða 2023. Það hafa aldrei fleiri unnið inni á Landspítala en akkúrat núna en við finnum fyrir því að álagið er að aukast. (Forseti hringir.) En það er líka staðreyndin alls staðar annars staðar í heiminum. Læknafélagið var m.a. að vísa í grein sem birtist í The Economist 15. janúar um álag á heilbrigðiskerfi víða um heim.