Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 112. fundur,  30. maí 2023.

ný sorpbrennslustöð.

312. mál
[15:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og ég þakka fyrirspyrjanda og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér með greinargott yfirlit um stöðuna þegar rætt er um byggingu á hátæknisorpbrennslu sem ég tel að sé mjög mikilvægt verkefni sem við Íslendingar eigum að leggja ríka áherslu á. Það er ein sorpbrennslustöð í landinu. Hún var fjármögnuð af Bandaríkjaher, við gátum nú ekki einu sinni borgað hana sjálf. Ég held að þetta sé mikilvægt verkefni. Það sannaðist svo sannarlega í riðutilfellinu sem kom upp fyrir skömmu að það er mikilvægt að eiga svona sorpbrennslu, hátæknisorpbrennslu, og að hverfa frá þessari urðun sem ég tel að við Íslendingar eigum alfarið að hætta, hætta að urða sorp hér á landi. Við erum umhverfisvæn þjóð með fallegt og dýrmætt land og að urða sorp finnst mér vera algjörlega á skjön við það og eiginlega bara síðasta sort. (Forseti hringir.) Ég vil bara nota tækifærið og hvetja hæstv. ráðherra til þess að vinna í þessu máli. Þetta er mikilvægt mál.