Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023-2026.

978. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð þessa tillögu, aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs, það er margt ágætt í þessu. Ég verð hins vegar að koma því á framfæri að nefndin hefur því miður ekki horft til umsagnar Minjastofnunar um málið. Umsögnin er vönduð og hefur að geyma mikilvægar upplýsingar og tillögur. Það eru vonbrigði og ég held að þetta hafi verið ákveðin mistök. Í tillögunni er ekkert minnst á mikilvægi handverksþekkingar, aðferða og efnisvals við viðhald og endurgerð mannvirkja sem tilheyra íslenskum byggingararfi og undir kaflanum um menntun framsækinna kynslóða er ekkert minnst á námsframboð um hefðbundið handverk eða viðhald gamalla húsa. Undir kaflanum um sjálfbæra innviði er ekkert minnst á endurnýtingu húsa og mannvirkja. Ekkert er minnst á varðveislu vegna byggingarlistarlegs eða menningarsögulegs gildis og ekki síst umhverfis- og sjálfbærnisjónarmiða.

Herra forseti. Þetta er mikill galli á annars ágætri tillögu.