Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Herra forseti. Við höfum upplifað ótrúlega tíma á undanförnum þremur árum sem hafa haft mikil áhrif á efnahagsmálin hér á landi og annars staðar í álfunni. Heimsfaraldur Covid, Úkraínustríðið, það er stríð í Evrópu, orkukreppa, aðfangakeðjur rofnað. Hver er staðan í efnahagsmálum á Íslandi og í Evrópusambandinu? Hvernig lítur samanburðurinn út? Hvernig tengist þetta ríkisfjármálaáætluninni sem við erum að fjalla um hér í þinginu þessa dagana?
Stóra málið er að ná niður verðbólgu. Sama á við í nágrannaríkjunum. Það er áhugavert að bera saman helstu hagstærðir í Evrópu og á Íslandi, sem er fjallað um í nýjustu útgáfu Brussel-vaktarinnar. Evrópa var yfir okkur í verðbólgu fyrir stuttu en er núna aðeins undir. Skýringin er einna helst orkuverð sem fór hátt upp þegar skorturinn var sem mestur en hefur hjaðnað núna á síðustu misserum. Þrátt fyrir það er undirliggjandi verðbólga að hækka og bendir til viðvarandi verðþrýstings. Staðan á vinnumarkaði er sterk en atvinnuleysi mælist í sögulegu lágmarki á þessu ári, 6,2%. Það myndi teljast hátt á íslenskan mælikvarða en á Íslandi stefnir í að atvinnuleysi verði í ár 3,7% samkvæmt spá Seðlabankans. Þá er gert ráð fyrir að skuldahlutfall ESB verði 84% í ár og 83% á því næsta. Hér á Íslandi er skuldahlutfallið helmingi lægra en innan Evrópusambandsins.
Hver er hagvöxtur á Íslandi til samanburðar við Evrópusambandið? Samkvæmt yfirferð Brussel-vaktarinnar er því spáð að hagvöxtur í ESB verði 1% í ár samanborið við 4,8% á Íslandi í nýjustu spá Seðlabankans. Þá bendir allt til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna verði jákvæður á árinu 2024 í Evrópusambandinu eftir nokkurra ára samdrátt. Á Íslandi hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna hins vegar aukist á undanförnum árum, uppsöfnuð aukning er 8% frá 2019–2021 en lækkaði örlítið á síðasta ári. Þessi kaupmáttaraukning hefur skilað sér best til tekjulægri hópa samfélagsins. Stóra verkefnið er að verja þessa kaupmáttaraukningu og til þess þarf samspil aðhalds í ríkisfjármálum og hóflegra kjarasamninga.
Seðlabankastjóri talaði um það á blaðamannafundi Seðlabankans í síðustu viku þegar stýrivaxtahækkanir voru kynntar að með þeirri ríkisfjármálaáætlun sem liggur fyrir sé hið opinbera að taka fyrstu skrefin í að taka ábyrgð á stöðunni og að þessi mikli hagvöxtur muni auðvelda ríkinu að loka hallanum. Hann segir einnig að nauðsynlegt sé að vinnumarkaðurinn sýni ábyrgð og átti sig á því að það sé ekki endilega að hjálpa fólki að hækka nafnlaun. Við sjáum þá bara aukna verðbólgu sem aftur kallar á hærri stýrivexti. Þetta eru orð seðlabankastjóra sem ber að hlusta á og taka alvarlega. Við verjum ekki kaupmáttaraukningu með hærri nafnlaunum, við verjum hana með lægri verðbólgu. En það dugar ekki til. Til lengri tíma verðum við að horfa til þess að auka framleiðni til að bera þessar launahækkanir. Framlegðin hefur lítið vaxið undanfarin ár og meðalvöxtur hefur meira en helmingast þegar litið er til lengri tíma. Mig minnir að í þessu samhengi hafi komið fram í umræðunni að á síðustu átta árum hafi framleiðni aðeins aukist að meðaltali um 1,3% á Ísland á unna vinnustund.
Þá eru það tengsl kjarasamninga og ríkisfjármála í baráttunni gegn verðbólgu. Það er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Nýjustu verðbólgumælingar sýna 9,5% verðbólgu á ársgrundvelli og vonandi hefur toppnum verið náð.
Við þurfum að gera enn betur. Það er mikilvægt að við skoðum fjármálaáætlun og aukum trúverðugleika hennar með frekari aðhaldsaðgerðum. Lykilatriði er að við látum þessar aðhaldsaðgerðir raungerast með fjárlögum í haust. Kaupmáttarþróun hefur verið með besta móti hér í samanburði við önnur lönd og til þess að við getum til lengri tíma haldið þeirri þróun áfram þurfum við á hóflegum langtímasamningum að halda. Með stýrivaxtahækkunum er verið að knýja fram útgjaldaminnkun heimila. Fyrir suma þýðir það hærri útgjöld en fyrir aðra þýðir það aukinn hvata til sparnaðar. Það fagnar því enginn að skuldsett heimili þurfi að borga meira vegna hærri vaxtakostnaðar en stýrivaxtahækkanir eru líka hvatning til þeirra sem ekki finna fyrir þeim í buddunni til að spara. En það eru enn neikvæðir raunvextir. Ef Seðlabankinn sér fram á hóflegar launahækkanir er auðveldara fyrir bankann að lækka vexti sem er talsvert betri kjarabót en nafnlaunahækkanir fyrir flesta.
Í öllum þessum málum tengdum ríkisfjármálaáætlun sem við erum að fást við í fjárlaganefnd er rétt að benda á sögulega mannfjölgun á Íslandi á síðasta ári sem hefur mikil áhrif inn í þetta og við tökum fyrir í síðari umræðu. En til að draga þetta saman er áframhaldandi verkefni stjórnvalda að ná niður verðbólgunni og styðja þá sem finna mest fyrir hækkandi verðlagi. Þar skiptir sköpum í þeirri vinnu að ríkisfjármálaáætlun sé trúverðug og að vinnumarkaðurinn spili með.