Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 113. fundur,  30. maí 2023.

Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.

[19:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hér ríkir stjórnleysi á öllum sviðum og ekki hvað síst á sviði efnahagsmála en stjórnleysi á öðrum sviðum hefur auðvitað áhrif á efnahagsmálin líka. Þegar þessi ríkisstjórn tók til starfa var sérstaklega tilkynnt um að þetta væri ekki ríkisstjórn um stór pólitísk mál, þetta væri ríkisstjórn um stöðugleika og breiða pólitíska skírskotun. Þessi síðastliðin ár núverandi ríkisstjórnar eru óstöðugasti stöðugleiki sem ég hef nokkurn tímann kynnst en hún náði þó breiðri pólitískri skírskotun því að mér sýnist og heyrist meira og minna allir vera búnir að átta sig á því að það gangi ekki lengur, þetta stjórnleysi þessarar ríkisstjórnar á öllum sviðum.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað sett met í útgjaldaaukningu. Engin ríkisstjórn hefur eytt eins miklum peningum og þessi, engin hefur aukið útgjöldin eins mikið og þessi, hvort sem litið er til krónutölu eða hlutfallslegrar hækkunar, og engin ríkisstjórn hefur verið eins svartsýn á eigin getu til að ná stjórn á efnahagsmálunum, ná stjórn á útgjöldum ríkissjóðs. Hv. þm. Bergþór Ólason spurði nýverið um það hversu mikill uppsafnaður halli þessarar ríkisstjórnar yrði á árunum 2020–2027 miðað við fjármálaáætlun. Þá erum við ekki einu sinni tala um allt tímabil þessarar ríkisstjórnar heldur frá árinu 2020 og til 2027 miðað við áætlanir. Niðurstaðan var sú að uppsafnaður halli á þessu tímabili næmi 826 milljörðum kr. á verðlagi hvers árs. Þegar við lítum til núvirðis mun þessi ríkisstjórn á þessu tiltölulega skamma tímabili ná að safna upp halla sem nemur yfir 1.000 milljörðum kr.

Og talandi um 1.000 milljarða, það var þessi ríkisstjórn sem eftir fáein ár í embætti fór með ríkisútgjöldin yfir 1.000 milljarða á einu ári. Það var nokkuð áfall fyrir marga að sjá að allt í einu væru útgjöld ríkisins orðin þetta mikil en þá fylgdi sögunni að stigið yrði á bremsuna, menn myndu ná tökum á ástandinu og koma okkur aftur undir 1.000 milljarðana. Nú sést ekki einu sinni í þessa 1.000 milljarða því að útgjöldin hafa hækkað um mörg hundruð milljarða síðan þá og ekkert útlit fyrir annað en að útgjaldaaukningin haldi áfram — og versnar bara og versnar. Tökum dæmi af árinu 2025 sem styttist nú í. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir þremur árum síðan var gert ráð fyrir að útgjöld þess árs yrðu 300 milljörðum kr. minni en nú er áætlað. Með öðrum orðum, herra forseti: Á þremur árum hefur svartsýni þessarar ríkisstjórnar á eigin getu til að ná stjórn á efnahagsmálunum aukist að því marki að árið 2025, það eina ár, hafa útgjöldin aukist um 300 milljarða samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar.

Allir sýndu því skilning á Covid-tímanum þegar ríkisstjórnin bað sér griða og sagðist myndu þurfa að auka útgjöld ríkisins töluvert til að takast á við heimsfaraldur, neyðarástand á heimsvísu, enda var þá verið að loka fyrirtækjum og í raun koma í veg fyrir verðmætasköpun í samfélaginu að miklu leyti. Það þurfti að halda þessum fyrirtækjum á lífi á meðan á því stæði og ýmis önnur útgjöld féllu til til að takast á við þennan faraldur. Þessu sýndum við skilning hér í þingsal enda fylgdi sögunni að þegar Covid-faraldurinn væri liðinn hjá eða efnahagsleg áhrif hans þá yrði strax farið í að spara og greiða niður þær skuldir sem upp hefðu safnast. En hver varð raunin? Raunin varð sú að í þessu sérstaka ástandi, á meðan á þessum heimsfaraldri stóð, hafði orðið til nýtt gólf í útgjöldum ríkisins; gólf sem þessi ríkisstjórn byggði svo jafnt og þétt ofan á og heldur áfram að byggja ofan á, eins og ég nefndi áðan, og heldur áfram að slá eigin Íslandsmet í útgjöldum ríkisins.

Það versta við þetta er að við sjáum engan afrakstur, við sjáum engan árangur af þessum gífurlegu útgjöldum. Hér koma hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarliðsins og segja: Við höfum verið að standa vörð um heilbrigðiskerfið. En hver er raunin? Hafa biðlistar verið lengri en nú eða biðin á biðlistum eftir því að komast inn á biðlista? Hefur heilbrigðiskerfið verið betur rekið undanfarin ár heldur en var fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar þrátt fyrir þessa gríðarlegu útgjaldaaukningu? Það er sama hvert er litið, við sjáum ekki afraksturinn, við sjáum ekki árangurinn af þessum gífurlegu útgjöldum ríkisstjórnarinnar en við sjáum afleiðingarnar hvað varðar verðbólgu.

Það er í raun óskiljanlegt, herra forseti, að við þær aðstæður sem nú eru uppi á verðbólgutímum; Covid-faraldurinn liðinn hjá, stríðsverðbólgan sem hafði áhrif um tíma úr sögunni, þá skuli ríkisstjórnin kynda verðbólgubálið sem mest hún má með því að slá enn og aftur fyrri met í útgjöldum ríkissjóðs og kemur svo og státar sig af því að hér sé töluverður hagvöxtur, umsvif í hagkerfinu. Skárra væri það nú miðað við þessi gífurlegu útgjöld ríkisstjórnarinnar. En það hvarflar ekki að henni að nýta auknar tekjur vegna þessara auknu umsvifa til að greiða niður skuldir eða reyna að hemja verðbólguna. Nei, allar þessar auknu tekjur, vegna verðlagshækkana ekki hvað síst, þær fara í enn meiri útgjöld, í þessa hræðilegu keðjuverkun sem ríkisstjórnin heldur gangandi. Ég skal fullyrða það, herra forseti, að flestir landsmenn, a.m.k. stór hluti þeirra, hafa síðustu misseri upplifað að þrátt fyrir þessa útgjaldaaukningu ríkisstjórnarinnar sé ríkjandi neyðarástand í heilbrigðismálum og á hinum ýmsu öðru sviðum. En áfram er peningum dælt í eitthvað sem ríkisstjórninni tekst ekki einu sinni að útskýra hvað er. Afleiðingarnar sjáum við í verðbólgunni.

Á húsnæðismarkaði er sannarlega neyðarástand, hvort sem það birtist í stórauknum greiðslum fólks af lánum sínum vegna aukinnar verðbólgu, sem munu bara vaxa um fyrirsjáanlega framtíð, eða skorti á húsnæði. Hvað fáum við frá ríkisstjórninni sem viðbrögð við því? Við fáum fleiri glærusýningar, oft og tíðum í samstarfi við borgarstjórann í ráðhúsinu hér handan við götuna. Mig minnir að fyrst hafi verið kynnt áform um 18.000 nýjar íbúðir, svo 20.000, einhvern tímann held ég að ég hafi heyrt talað um 30.000, svo fór það aftur í 25.000 og nýjasta talan er 35.000 nýjar íbúðir — á glærum en í raunveruleikanum ekkert. Samtök iðnaðarins spá því raunar að það verði 65% samdráttur í byggingu nýrra íbúða.

Svona starfar þessi ríkisstjórn. Þetta snýst allt um umbúðir, sýndarmennsku, ekkert um innihaldið, hvað þá raunverulegar aðgerðir til að takast á við vandann. Og á sama tíma og metfjöldi hælisleitenda heldur áfram að koma til Íslands, að því marki að þeir urðu fleiri sem komu hingað heldur en til Danmerkur að sækja um hæli, og ekki bara hlutfallslega heldur fleiri einstaklingar, þá sýnir ríkisstjórnin engin viðbrögð önnur en þau að reyna eftir fremsta megni að takast á við orðinn hlut með því, verandi búin að ryksuga upp leigumarkaðinn, að leggja nú fram frumvarp um að atvinnuhúsnæði, skrifstofu- og iðnaðarhúsnæði, megi breyta í einhvers konar flóttamannabúðir eða skjólgarða eins og þau vilja víst kalla það. Dæmigert fyrir þessa ríkisstjórn að gefa hlutunum nýtt nafn til að fela innihaldið.

Við ástand eins og þetta, það hrikalega efnahagsástand sem blasir við okkur öllum, þá getum við ekki lengur leyft í ríkisstjórninni að komast upp með að tala bara út frá umbúðunum. Hún verður að fara að líta á innihaldið og hún verður að bregðast við þessu ástandi, þótt ekki væri nema með því að hætta að kynda bálið. Það er líklega til of mikils ætlast af þessari ríkisstjórn að hún taki forystu og leiði okkur út úr vandanum með lausnum en megum við ekki a.m.k. biðja hana að hætta að valda tjóni?